Fulltrúar 20 fyrirtækja sóttu kynningarfund fulltrúa Nopef, norræna verkefnaútflutningssjóðsins, og NEFCO, norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins, sem haldinn var í samstarfi við Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins þann 26. október síðastliðinn.
Hjá báðum aðilum eiga íslensk fyrirtæki möguleika á styrkjum og fjármagni til verkefna erlendis. Skilyrðið er að verkefnin hafi umhverfislegan ávinning í þeim löndum þar sem þau eru unnin.
Á fundinum kynntu Mikael Reims, framkvæmdastjóri Nopef, og Þórhallur Þorsteinsson, fjárfestingastjóri NEFCO, starfsemi beggja sjóða. Þá sögðu Sveinn I. Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís, og Atli Már Jósafatsson, framkvæmdastjóri Pólar toghlera, frá samstarfi við Nopef og þeim verkefnum sem fyrirtækin hafa fengið styrki til - annars vegar á sviði jarðvarma og hins vegar í sjávarútvegi. Alls hafa um 70 íslensk fyrirtæki í ýmsum greinum fengið fjármagn í gegnum árin frá Nopef til hagkvæmnisathugana erlendis.
Nopef styrkir undirbúning verkefna í löndum utan EES en NEFCO fjármagnar fjölbreytt verkefni á skilgreindum kjarnasvæðum sínum sem eru 10 lönd í Mið- og Austur-Evrópu.
Sjá nánar um starfsemi Nopef og NEFCO.