Íslandsstofa og iðnaðarráðuneytið, ásamt Sendiráði Íslands í Berlín, stóðu að ráðstefnu um jarðhita í Varsjá í Póllandi í síðustu viku. Ráðstefnan var unnin í nánu samstarfi við pólsk stjórnvöld og sýndu heimamenn málefninu mikinn áhuga.
Sendiherra Íslands í Berlín, Gunnar Snorri Gunnarsson, flutti eitt af opnunarerindunum og ræddi meðal annars mikilvægi samstarfs-samnings um jarðhitamál sem gerður var milli landanna beggja á síðasta ári.
Fjórir íslenskir sérfræðingar kynntu þá tækni og þróun sem orðið hefur á nýtingu jarðvarma hérlendis á undanförnum árum en vonir standa til að hægt verði að nýta þekkingu og krafta íslenskra verkfræðifyrirtækja við jarðvarmavinnslu í Póllandi í framtíðinni.
Þá fóru pólskir sérfræðingar á sviði jarðfræði og jarðvarma, ásamt fulltrúum stjórnvalda, ítarlega yfir möguleika á jarðvarmanýtingu í Póllandi og kynntu hið opinbera stuðningskerfi.
Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt voru Verkís, Efla og Gekon. Að ráðstefnu lokinni heimsóttu íslensku þátttakendurnir tvö sveitarfélög þar sem jarðhitanýting er ýmist komin til framkvæmda eða búið að bora eftir heitu vatni.
Vaxandi áhugi er á jarðhitamálum í Póllandi og hafa verið gefin út yfir 25 rannsóknarleyfi til jarðhitavinnslu, bæði til hefðbundinna baðlauga sem og til upphitunar íbúðarhúsnæðis.
Glærur frá ráðstefnunni eru aðgengilegar hér að neðan:
Kynningar 1 Kynningar 2 Kynningar 3 Kynningar 4