Margt áhugavert í ferð viðskiptasendinefndar til Sao Paulo 14.-17. október
Íslandsstofa skipulagði ferð viðskiptasendinefndar sjávarútvegsfyrirtækja til Brasilíu 14.-17. október en tilgangur ferðarinnar var að kanna möguleika á að auka útflutning sjávarafurða til Brasilíu. Dagskráin fólst í heimsókn til dreifingaraðila á sjávarafurðum, viðræðum við væntanlega kaupendur, skoðunarferðum í verslanir og markaði og viðskiptaþingi sem haldið var í Sao Paulo 15.október.
Ferðin var skipulögð í tengslum við heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Brasilíu en hann ræddi við yfirvöld og áhrifaðila í viðskiptalífinu með það að markamiði að greiða fyrir viðskiptum milli landanna. Útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur aukist verulega undanfarin ár eða úr rúmlega 100 milljónum króna árið 2006 í 891 milljón króna árið 2012 en í fyrra minnkaði útflutningurinn örlítið frá 2012, var 1.510 tonn eða 653 milljónir króna. Lang stærstur hluti útflutningsins er ufsi eða um 70% en næst mest er flutt út af þorski.
Viðskiptaþingið var haldið í húsakynnum Viðskiptaráðsins í Sao Paulo sem aðstoðaði við undirbúning en á það var boðið brasilískum innkaupaaðilum á sjávarafurðum og vinnslu- og dreifingarfyrirtækjum. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hélt ræðu á þinginu og lagði megináherslu á vilja Íslands til að greitt yrði fyrir viðskiptum með sjávarafurðir milli landanna. Gunnar Bragi lýsti yfir eindregnum vilja íslenskra stjórnvalda til þess að hafnar verði fríverslunarviðræður á milli EFTA-ríkjanna og MERCOSUR-viðskiptabandalagsins, sem Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ og Venezuela eru aðilar að. Gunnar Bragi upplýsti jafnframt að hann hefði á fundum sínum með utanríkisráðherra og landbúnaðarráðherra daginn áður lagt til að stjórnvöld landanna á sviði dýraheilbrigðismála myndu auka samstarf sín á milli og hæfu jafnframt viðræður sín á milli um samning varðandi framkvæmd dýraheilbrigðiseftirlits við innflutning landbúnaðar- og sjávarafurða í viðskiptum milli landanna. Reglur á því sviði í Brasilíu hafa þótt torvelda útflutning íslenskra sjávarafurða þangað, m.a. vegna tíðra breytinga á skilyrðum fyrir innflutningi sjávarafurða og þar sem upplýsingar um slíkar breytingar skila sér ekki nægilega hratt til íslenskra útflytjenda og stjórnvalda.
Guðný Káradóttir forstöðumaður sjávarútvegs og matvælasviðs Íslandsstofu kynnti íslenska matvælaframleiðslu og sjávarútveg og hvað Íslendingar hafa að bjóða brasilískum kaupendum sjávarafurða. Á fundinum kynntu íslensku þátttakendurnir starfsemi fyrirtækja sinna og afurðir en það voru fulltrúar frá Skinney-Þinganes, Vísi, Norlandia, Iceland Pelagic og Marel. Fyrirtækin áttu einnig viðræður að þinginu loknu við áhugasama kaupendur.
Þinginu voru gerð ítarleg skil í fréttabréfi viðskiptaráðsins en félagsmenn þess eru um 35.000. Sjá fréttina hér.
Nánari upplýsingar veita Þorleifur Þór Jónsson, thorleifur@islandsstofa.is, og Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is.