Ísland fer upp um sjö sæti frá árinu 2012 í rannsókn fyrirtækisins FutureBrand á verðmætum sem býr í ímynd landa.
FutureBrand, sem sérhæfir sig í mörkun (branding), hefur frá árinu 2005 gert rannsóknir á viðhorfum fólks til einstakra landa (country brand). Kannað er hvaða mælivíddir það eru sem móta viðhorf fólks þegar kemur að innkaupum á vörum og þjónustu, hvert fólk velur að ferðast, hvar það menntar sig og hvar fyrirtæki eru stofnsett. Nýjasta skýrslan sem kom út í nóvember 2014 er aðgengileg hér á vefnum. FutureBrand hefur einnig rannsakað hvernig tengingar við einstök lönd hafa áhrif á kauphegðun og fjallar nýleg skýrsla þeirra „Made in…“ um vaxandi mikilvægi uppruna afurða fyrir neytendur.
Á fundi sem Íslandsstofa hélt 24. nóv. fóru Hólmfríður Harðardóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu FutureBrand í New York, og Sven Seger, yfirhönnuður yfir helstu þætti skýrslanna og niðurstöðum sem tengjast Íslandi sérstaklega. Þar kom fram m.a. að uppruni hefur áhrif á val neytenda og skilgreining upprunalands verður sífellt skýrari. Styrkur ímyndar landa vex ef þekkt vörumerki finnast í mörgum geirum en tækni, nýsköpun og sjálfbærni hafa hvað mest áhrif á viðhorf fólks til einstakra landa. Einnig kom fram að vitund jafngildir ekki sterkri ímynd landa. Ísland er sem áður sagði í 15. sæti yfir verðmætustu ímynd landa en var áður í 22. sæti. Fundurinn var vel sóttur og höfðu gestir margar áhugaverðar spurningar. Hér má nálgast kynningu Hólmfríðar og Sven á pdf formi.