Íslandsstofa tók í fyrsta skipti þátt í MITT ferðakaupstefnunni í Moskvu dagana 19. - 23. mars sl.
Íslandi var boðið sérstaklega til þátttöku af aðstandendum sýningarinnar sem er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Íslandsstofa naut þar dyggrar aðstoðar frá sendiráði Íslands í Moskvu með Albert Jónsson sendiherra í broddi fylkingar. Meira um málið á facebook síðu sendiráðsins
Sýningin stóð yfir í fjóra daga en þar voru samankomnir um 1800 sýnendur frá 200 löndum. Sýnendur lögðu undir sig 55.000 fermetra sýningarsvæði í níu sýningarhöllum, en til samanburðar má geta þess að stærri salurinn í Laugardalshöll er um 5000 fermetrar. Gestir á svæðinu voru 38.000 talsins og þar af komu um 70% úr röðum ferðaþjónustuaðila. Heimsóknir voru þó tæplega helmingi fleiri eða um 74.000 þar sem fjölmargir komu oftar en einu sinni til að ná að komast yfir allt sýningarsvæðið.
Rússland er það markaðssvæði í ferðaþjónustu sem er að vaxa hvað hraðast. Rússneskum gestum á Íslandi fjölgaði úr 1770 í tæplega 7000 á árunum 2010-2013 og eykst fjöldi þeirra stöðugt er sýna því áhuga að koma hingað til að njóta náttúrunnar og ýmiskonar afþreyingar.