Forseti Íslands fór í opinbera heimsókn til Danmerkur 24.-26. janúar sl. Íslandsstofa hafði það hlutverk að halda utan um skipulagningu og framkvæmd viðskiptatengdra viðburða í tengslum við heimsóknina.
Heimsókn forsetahjónanna vakti mikla athygli á Íslandi og málefnum Íslands og nýtur atvinnulífið m.a. góðs af því. Lagt var upp með að nýta heimsóknina m.a. til að auka vitund um Ísland sem áhugavert viðskiptaland sem leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda og hreina náttúru, sem og gæði í matvælaframleiðslu og nýtir rannsóknir og þekkingu til að skapa áhugaverðar tæknilausnir.
Fundur um sjálfbærni og nýsköpun í matvælaframleiðslu
Dansk Industri bauð fyrirtækjum innan sinna vébanda og öðrum áhugasömum aðilum til fundar, sem skipulagður var í samstarfi við Íslandsstofu, forsetaembættið og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn. Yfirskrift fundarins var "Innovation and sustainability in food production". Þar var fjallað um hvernig sjálfbær nýting auðlinda hafsins, þekking, samvinna í litlu samfélagi og nýsköpunarkraftur Íslendinga nýtist til að framleiða áhugaverðar og eftirsóttar afurðir sem skila Íslendingum miklum og vaxandi verðmætum. Friðrik krónprins var viðstaddur fundinn og ávarpaði forsetinn hann, eftir að Karsten Dybvad yfirmaður Dansk industri bauð gesti velkomna.
Jóhann Sigurjónsson, sérlegur erindreki í utanríkisráðuneytinu í málefnum hafsins, fjallaði um lykilþætti ábyrgrar fiskveiðistjórnunar til að ná fram sjálfbærum veiðum. Hann lýsti því á skemmtilegan hátt að málið snerist m.a. um að nýta stóra árganga fiskistofnanna með ábyrgum hætti með langtímasjónarmið að leiðarljósi. Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu hélt erindi um verðmætasköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum. Sagði hann Íslendinga hafa aukið verðmæti þótt afli hafi dregist saman á síðustu árum, þar sem þeir seldu nú verðmætari fiskafurðir á markaði en áður. Hann sýndi myndband sem lýsir helstu afurðum, rannsóknum og tæknilausnum sem eiga þátt í þessu.
Fjórir fulltrúar úr sjávarútvegi og tengdum greinum tóku þátt í pallborðsumræðum sem Leif Nielson hjá Dansk industri stýrði. Um var að ræða Sigurð Ólason frá Marel, Tómas Þór Eiríksson frá Codland, Laufeyju Ósk Skúladóttur hjá FISK sem kynnti afurðir Protis og Guðmund Fertram Sigurjónsson frá Kerecis.
Fundargestir voru áhugasamir og fengu tækifæri til að hitta fulltrúa fyrirtækjanna og aðra Íslendinga sem sóttu fundinn.
Íslensk matvæli í IRMA verslunum
Forsetinn nýtti tækifærið og heimsótti IRMA verslun við Borgergade þar sem íslenskum matvælum var gert hátt undir höfði þá daga sem opinbera heimsóknin stóð yfir. IRMA hefur til sölu nokkuð mikið úrval íslenskra matvæla, salt, fisk, sælgæti, vatn og skyr sem framleitt er af Thise með sérleyfi frá MS. Vörurnar eru flestar kynntar undir vörumerki IRMA, sem hefur sterka stöðu í Danmörku og stendur fyrir gæði. Í öllum tilfellum eru upplýsingar um íslenskan uppruna. Þá notar IRMA t.d. íslenska saltið í framleiðslu á öðrum vörum, kexi og rjómabollum eða "flødeboller". Voru stjórnendur IRMA og innkaupastjórar ánægðir með heimsóknina og lýstu áhuga á að kaupa fleiri vörur frá Íslandi. Ljóst er að Ísland hefur góða ímynd í Danmörku sem gerir íslenskar vörur eftirsóttar.
Til viðbótar má geta þess að á West Market sem verið var að opna við Vesterbrogade, gaf að líta íslenskar vörur, bjór, líkjöra og salt í versluninni Fiskur. Verslunin opnaði nýverið og er rekin af tveimur Íslendingum sem hyggjast í framtíðinni einnig bjóða upp á íslenskan fisk til sölu.
Hér má sjá umfjöllun á DR tv um viðskiptaviðburði tengda opinberu heimsókninni.