Quantcast
Channel: islandsstofa.is
Viewing all 892 articles
Browse latest View live

Hraðstefnumót í Póllandi

$
0
0

Skandinavísk–pólska verslunarráðið býður til hraðstefnumóta fimmtudaginn 14. nóvember nk. í borginni Sopot í Póllandi. Sendiráð Íslands í Berlín er aðili að Skandinavísk-pólska verslunarráðinu og hægt er að fá aðgöngu að viðburðinum í gegnum þá aðild. Sé áhugi fyrir að komast í samband við fyrirtæki í Norður–Póllandi þá er hér tækifæri til að ná allt að 30 kynningarfundum á stuttum tíma.

Fundurinn verður haldinn á Mera Spa Hotel, ul. Bitwy pod Płowcami 59, Sopot og hefst kl 17.

Frekari upplýsingar veita Þorleifur Þór Jónsson, thorleifur@islandsstofa.is og Kristín Hjálmtýsdóttir, kristin@chamber.is


Fjölmennur fundur í Anchorage

$
0
0

Sendinefnd frá Íslandi var í aðalhlutverki á hádegisverðarfundi sem haldinn var í Anchorage, Alaska í gær.
Frummælandi á fundinum var Þórður Hilmarsson, forstöðumaður fjárfestingasviðs Íslandsstofu en auk hans fluttu ávörp þeir Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Pétur Einarsson, framkvæmdastjóri hjá Marko Partners. Gerður var góður rómur að erindunum og komu margar spurningar úr sal frá þeim ríflega 120 gestum sem sátu fundinn. Ljóst er að með tilkomu beins flugs frá Íslandi til Anchorage hefur vaknað áhugi á auknum samskiptum milli landanna bæði á sviði viðskipta sem og í ferðaþjónustu.
Þátttaka á fundinum var liður í dagskrá sendinefndar sem heimsækir nú Anchorage en auk ofangreindra eru fulltrúar MainSoft og BBA lögmanna með í för. Sendinefndin er skipulögð í samvinnu viðskiptafulltrúa Íslands í New York og Íslandsstofu. 

Jákvæðni í garð Íslands á World Travel Market

$
0
0

Íslandsstofa var þátttakandi á World Travel Market ferðasýningunni í London dagana 4-7. nóvember sl. Vel gekk á sýningunni og mátti greina mikinn áhuga á Íslandi og Íslandsferðum, að sögn Heru Bráar Gunnarsdóttur, verkefnisstjóra ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.
Íslandsstofa hélt utan um skipulagningu og framkvæmd á þjóðarbási Íslands en átján fyrirtæki tóku þátt fyrir hönd Íslands í ár. Það voru eftirfarandi fyrirtæki:
Bláa Lónið
CampEasy
Elding
Flugfélag íslands
Guðmundur Jónasson
Guðmundur Tyrfingsson
Hótel Selfoss
Hótel Skógar
Icelandair
Iceland Excursions
Iceland Travel
Íslandshótel
Íslenskir fjallaleiðsögumenn
Kea Hotels
Reykjavik Excursions
Snæland Travel
Special Tours
Wow air

Þá var eitt fyrirtæki frá Grænlandi með í för, Arctic Adventures.

Sýningin var mikil að vöxtum að venju, með um 700 sýningarbása og fulltrúa 500 fyrirtækja sem koma víðsvegar að úr heiminum. Áætlað er að um 45.000 fagaðilar hafi sótt sýninguna að þessu sinni.

Hér að neðan má sjá myndir frá World Travel Market

Miklir samstarfsmöguleikar í Seattle

$
0
0

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fulltrúar 13 íslenskra fyrirtækja fylgdu Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í heimsókn hennar til Seattle í síðustu viku. Heimsóknin var skipulögð í samstarfi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins, Íslandsstofu, Seattle Trade Alliance og viðskiptafulltrúa Íslands í New York.

Ferðin samanstóð af fundum með heimamönnum ásamt kynningum þar sem íslensku fyrirtækin voru kynnt og fengu á móti fræðslu um uppbyggingu viðskiptaumhverfisins í Seattle. Lykilfyrirtæki á staðnum voru heimsótt, m.a. Microsoft og Boeing, en einnig smærri aðilar sem voru ekki síður áhugaverðir, s.s. útgerðarfyrirtækið American Seafood og fiskvinnslan Trident seafood. Þá var athyglisvert að kynnast starfsemi Marel í borginni. Seattle skartar einnig frægum háskóla og rannsóknarumhverfi og kynntust þátttakendur starfsemi Washington háskóla á sviði sjávarvísinda.

Ljóst er að miklir samstarfsmöguleikar eru milli Íslands og vesturstrandar Bandaríkjanna og ekki spillir fyrir að boðið er upp á beint flug þangað daglega frá Íslandi.

Fyrirtækin sem tóku þátt voru Fisktækniskólinn, Icelandair, Íslandsbanki, Hampiðjan, Héðinn, Landsbankinn, MaintSoft, Marco Partners, Marel, Naust, Traust, Úthafsskip og Össur.

Í Portúgal er lífið líka saltfiskur

$
0
0

Dagana 6. og 7. nóvember fór fram kynning á íslenskum saltfiski í Lissabon í Portúgal. Kynningin er liður í markaðssamstarfi framleiðenda og útflytjenda á saltfiskafurðum sem Íslandsstofa stýrir en stjórnvöld koma einnig að verkefninu. Áhersla var lögð á kynningu fyrir fjölmiðla og að ná til almennings i gegnum vef- og samfélagsmiðla.

Eldhúsið, sem Íslandsstofa hefur notað með góðum árangri í sínu markaðsstarfi, var staðstett við aðallestarstöðina í Lissabon, á EXPO svæðinu og þar var almenningi boðið upp á að smakka gæðasaltfiskrétti úr úrvalshráefni frá Íslandi, matreidda á portúgalska vísu. Blaðamönnum og  matarbloggurum var boðið í Eldhúsið þar sem þeir fengu kynningu á íslenskum sjávarútvegi og íslenskum saltfiskafurðum.

Málsvarar frá öflugum portúgölskum fyrirtækjum sem kaupa íslenskan saltfisk tóku þátt í kynningum og var framlag þeirra mjög mikilvægt því þeir töluðu mjög vel um íslenska saltfiskinn og gæði hans umfram annan fisk á markaðnum. Axel Nikulásson sendiráðunautur í London (Portúgal heyrir undir Íslenska sendráðið í London) og Helena Dundas konsúll í Lissabon voru einnig þátttakendur í kynningunum. Eftir kynninguna var farið á veitingastað í miðborg Lissabon þar sem fulltrúum fjölmiðla gafst tækifæri að bragða á mismunandi saltfiskréttum sem allir voru úr íslensku hráefni.

Fjölmiðlafólkið sýndi Íslandi mikla og jákvæða athygli, sérstaklega íslenska saltfiskinum, en einnig var mikið spurt um efnahagsmál og ferðaþjónustu á Íslandi. Portúgalir eru stærstu neytendur á saltfiski í heiminum og er neysla á saltfiski stöðug allt árið en nær hápunkti um jólin. Í Portúgal er saltfiskur meira en matur en sagt er að það séu til meira en þúsund saltfiskuppskriftir í Portúgal. Það má því segja að gamla íslenska orðatiltækið „Lífið er saltfiskur“ eigi svo sannarlega vel við í Portúgal.

Það eru 26 íslensk fyrirtæki sem hafa sameinast um að kynna íslenskar saltfiskafurðir í S-Evrópu undir kjörorðinu "Taste and share the secret of Icelandic Bacalao". Mikil áhersla er lögð á gæði og uppruna vörunnar og er íslenska þorpið notað sem „rödd“ í kynningunni. Verkefnið nýtir markvisst vef- og samfélagsmiðla og getur almenningur tekið þátt í uppskriftasamkeppni þar sem ferð til Íslands og íslenskur saltfiskur eru á meðal vinninga.

Hér má sjá vefsíðu fyrir verkefnið á portúgölsku - og hér að neðan má finna tengla inn á samfélagsmiðla verkefnisins í Portúgal:

Facebook

Youtube

Twitter
Nánari upplýsingar um verkefnið veita:
Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is, sími 511 4000
Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is, sími 511 4000

Hér að neðan má sjá myndir frá Lissabon

 

Málstofa framundan - viðskiptatækifæri í Malasíu

$
0
0

Í tilefni af komu sendinefndar frá Malasíu hingað til lands fer fram málþing þriðjudaginn 19. nóvember kl. 09:00 - 11:30 þar sem kynnt verða aukin tækifæri til samstarfs á milli fyrirtækja á Íslandi og í Malasíu. Málstofan verður haldin í húsakynnum Íslandsstofu, Sundagörðum 2.

Malasísk stjórnvöld hafa markað sér stefnu um endurmótun hagkerfisins fyrir árið 2020. Í því skyni er nú lögð meiri áhersla á virðisaukandi framleiðslu í Malasíu fremur en útflutning hráefna. Stjórnvöld í Malasíu hafa boðið erlendum fyrirtækjum að taka þátt í þessari þróun með ýmiskonar stuðningi, sérstaklega í hátækniiðnaði, upplýsingatækni, virðisaukaskapandi greinum, vöruframleiðslu sem krefst sérfræðiþekkingar og þjónustu þessu tengdu.

Íslensk fyrirtæki mega halda 100% eignarhluta í framleiðslufyrirtækjum og tengdri þjónustu.
Ef áhugi er á Joint Ventures, býður MIDA aðstoð sína. Málstofunni er einnig ætlað að kanna möguleika á tvíhliða viðskiptum milli landanna.

Hér má sjá dagskrá málstofunnar (á ensku)

Áhugasamir eru beðnir að tilkynna þátttöku sína á netfangið islandsstofa@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

Nánari upplýsingar veitir Andri Marteinsson, forstöðumaður iðnaðar og þjónustu, andri@islandsstofa.is.

Þeir aðilar sem standa fyrir málþinginu eru:
Malaysian Investment Development Authority (MIDA), ræðismaður Malasíu á Íslandi, Örn Erlendsson og Íslandsstofa.

 

 

 

Markaðsrannsóknir mikilvægar þegar velja á nýjan markað

$
0
0

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



Færri komust að en vildu á vinnustofu Íslandsstofu sem haldin var á Hilton Reykjavik Nordica í gær og fjallaði um fyrstu skrefin í útflutningi.

Þegar hugað er að útflutningi er mikilvægt að vita hvaða markaður hentar best þeirri vöru eða þjónustu sem á að markaðssetja en á vinnustofunni var leitast við að svara helstu spurningum þessu tengdu. Í upphafi fundar kynnti Björn H. Reynisson þá þjónustu Íslandsstofu sem miðar að því að aðstoða fyrirtæki og einstaklinga í útflutningshugleiðingum eða eru nú þegar að flytja út vörur eða þjónustu. (Sjá nánar um útflutningsþjónustu Íslandsstofu).
 
Þá kynntu fulltrúar fyrirtækjanna sig stuttlega fyrir öðrum þátttakendum og var gaman að sjá hversu breið flóra fyrirtækja var þarna samankomin, allt frá framleiðendum gosdrykkja og tölvuleikja til fyrirtækja í heilsuvöruframleiðslu og tískuhönnun, svo dæmi séu tekin. Fyrirtækin voru mörg hver þegar í útflutningi og hugðust rifja upp þekkingu sína á efninu og viða að sér nýjum upplýsingum, meðan önnur voru að stíga sín fyrstu skref á erlendum markaði.

Mark Dodsworth, eigandi ráðgjafafyrirtækisins Europartnerships í Bretlandi, stýrði vinnustofunni og lét hann viðstadda leysa ýmis verkefni tengd viðfangsefninu. Mark ræddi m.a. um mikilvægi markaðsrannsókna og sagði að innsæið eitt og sér væri ekki nægilegt þegar fara á inn á ákveðinn markað, heldur þurfa áreiðanlegar upplýsingar um markaðinn að ráða mestu þar um. Hann sagði að rannsóknir sem þessar gætu komið í veg fyrir dýr mistök og sparað tíma og fjármagn,  jafnvel þó að í ljós komi að markaðurinn sé ekki heppilegur fyrir tiltekna vöru eða þjónustu. Þá kom Mark með nokkur hagnýt ráð um hvernig best er að standa að upplýsingaöflun án þess að "drukkna" og gaf dæmi um fáar en góðar upplýsingaveitur. Þá var þátttakendum skipt í nokkra hópa og þeir beðnir að koma með grunnáætlun fyrir markaðsrannsókn, með eitt ákveðið fyrirtæki að leiðarljósi.
    Líflegar umræður sköpuðust á staðnum og það voru ánægðir þátttakendur sem yfirgáfu vinnustofuna að fjórum tímum loknum, reynslunni ríkari með vegleg námskeiðsgögn í farteskinu.

Íslenskur saltfiskur sækir fram í Suður Evrópu

$
0
0

Mikill áhugi er bæði á Íslandi og íslenskum saltfiski í Portúgal og á Spáni ef marka má viðbrögð þarlendra fjölmiðla við kynningum á íslenskum saltfiski að undanförnu. Fjöldi fólks lagði leið sína í litla Eldhúsið, táknmynd íslenska þorpsins, sem komið var fyrir á fjölförnum stöðum í Lissabon og Bilbao núna í nóvember. Þar gafst almenningi færi á að bragða íslenskan gæðasaltfisk úr úrvalshráefni.

Kynningin er liður í markaðssamstarfi fyrirtækja í saltfiskvinnslu og útflutningi en alls eru 26 fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu. Lögð er áhersla á gæði og ferskleika íslenskra saltfiskaurða undir kjörorðinu „Taste and share the secret of Icelandic Bacalao“.

„Við höfum þegar staðið fyrir kynningum í Barcelona, Bilbao og Lissabon þar sem við höfum átt gott samstarf við kokka og hágæða veitingastaði. Það hefur verið gaman að sjá hversu sterk og lifandi tengsl fólks í þessum löndum eru við íslenskan saltfisk. Þarna skiptir góð ímynd Íslands líka miklu máli. Unnið er að því að auka umfjöllun um íslenskan saltfisk í fjölmiðlum, vef- og samfélagsmiðlum. Þá verður uppskriftasamkeppni á Facebook þar sem ferð til Íslands og íslenskur saltfiskur eru á meðal vinninga,“ segir Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu sem sér um framkvæmd verkefnisins.

Ávinningur af þessu verkefni er nú byrjaður að koma í ljós. „Þessi fyrstu skref eru mjög jákvæð. Mikil áhugi fjölmiðla vekur vonir um að verkefnið komi til með að skila okkur árangri og geti orðið fyrirmynd við áframhaldani kynningu á íslenskum sjávarafurðum,“ segir Skjöldur Pálmason, einn þátttakenda í verkefninu og formaður Íslenskra saltfiskframleiðenda.

Stofnaðilar verkefnisins eru Íslenskir saltfiskframleiðendur, Íslandsstofa og stjórnvöld. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafa tekið virkan þátt í kynningunum auk fulltrúa fyrirtækjanna. Sendiherra Íslands í París tók þátt í kynningunni í Barcelona ásamt ræðismanninum þar og í Lissabon tóku þátt konsúllinn og sendiráðunautur í London sem sinnir Portúgal.

Hér má finna nánari upplýsingar um verkefnið (pdf)

Nánari upplýsingar veitir:

Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is, Sími: 590 9320 og 693 3233

Tenglar á video og samfélagsmiðla:

SPÁNN:

http://www.bacalao-islandia.es/

https://www.facebook.com/bacalaoislandia

http://www.youtube.com/bacalaoislandia

https://twitter.com/bacalaoislandia

https://www.pinterest.com/bacalaoislandia/

PORTÚGAL:

http://www.bacalhaudaislandia.pt/

https://www.facebook.com/bacalhaudaislandia

http://www.youtube.com/user/bacalhaudaislandia

https://twitter.com/Bislandia

 

 

 


Búið að deila yfir 100 leyndarmálum

$
0
0

Nú er vetrarherferðin Share the Secret komin vel af stað og birtingar á hefðbundnum auglýsinum hafnar á erlendum mörkuðum.

Yfir 100 leyndarmálum hefur verið deilt á vef Inspired by Iceland bæði í formi myndbanda sem texta og hvetjum við ykkur til þess að kynna ykkur þau og deila þeim áfram á ykkur samfélagsmiðlum.  Einnig hvetjum við ykkur til þess að taka þátt og deila ykkar leyndarmálum í gegnum vefsíðuna.

Á vinnusvæði Ísland – allt árið er hægt að kynna sér frekari upplýsingar um framvindu vetrarherferðarinnar ásamt því að skoða sýnishorn af þeim auglýsingum sem eru í birtingum á erlendum mörkuðum.

Skoða leyndarmál

Nánari upplýsingar veita Guðrún Birna Jörgensen, gudrunbirna@islandsstofa.is og Daði Guðjónsson, dadi@islandsstofa.is  

Fjallað um sameiginlegt markaðsstarf á Sjávarútvegsráðstefnunni

$
0
0

Sjávarútvegsráðstefnan var haldin 21.-22. nóvember sl. Þar var meðal annars fjallað um sameiginlegt markaðsstarf á erlendum mörkuðum.
Skjöldur Pálmason sem er einn þátttakenda í markaðsverkefni um kynningu á saltfiskafurðum í Suður Evrópu sem Íslandsstofa stýrir kynnti verkefnið auk þess sem flutt var áhugavert erindi um markaðsstarf Alaskabúa. Þá hélt Guðný Káradóttir forstöðumaður hjá Íslandsstofu erindi um kynningarstarf undir merkjum Iceland Responsible Fisheries og gildi upprunamerkinga í markaðsstarfi.
Erindin á Sjávarútvegsráðstefnunni eru nú aðgengileg á vefnum.

 

Íslenskum matvælum vel tekið í Sviss

$
0
0

Íslenskur fiskur, lambakjöt og skyr voru megin uppistaða þess íslenska hráefnis sem kynnt var á IGEHO sýningunni í Basel í Sviss dagana 23.-27. nóvember.

Þetta er í fyrsta sinn sem matvæli frá Íslandi eru kynnt á sýningunni en markmiðið var að sýna fram á sérstöðu Íslands sem framleiðanda á úrvalshráefni. Fjöldi fólks heimsótti íslenska þjóðarbásinn alla fimm dagana sem sýningin stóð yfir og sýndu þeir íslenska matnum mikinn áhuga. Matreiðslumaðurinn Gunnar Karl Gíslason matreiddi lambakjöt, þorsk og lax og bauð gestum að smakka, sem lýstu yfir mikilli ánægju með það sem í boði  var. Þátttakendur á íslenska sýningarsvæðinu auk Íslandsstofu voru: Ice-co, Kjarnafæði, SAH afurðir, MS og Iceland Responsible Fisheries.

IGEHO er alþjóðleg sýning þar sem finna má allt sem viðkemur rekstri hótela og veitingahúsa og sækja hana að jafnaði um 75.000 gestir hverju sinni, en sýningin er haldin annað hvert ár.

Nánari upplýsingar má finna á vef IGEHO

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá sýningunni

Tengslamyndun rædd á fundi upplýsingatæknifyrirtækja

$
0
0

Kynningar- og sölumál voru í brennidepli á öðrum fundi Íslandsstofu og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) sem haldinn var sl. miðvikudag. Fundurinn bar yfirskriftina „Tengslamyndun á erlendum markaði“ en þar fengu fulltrúar upplýsingatæknifyrirtækja m.a. fræðslu um árangursríka kynningartækni.

Á fundinum ræddi Ragnheiður Aradóttir, leiðbeinandi hjá Dale Carnegie, mikilvægi tengslanetsins í kynningarmálum fyrirtækis. Meðal þess sem hún fór yfir voru aðferðir sem auðvelda aðilum að víkka út tengslanet sitt, þ.m.t. samræðutækni og hvernig á að halda áhrifaríka ‚lyfturæðu‘ og fengu viðstaddir að spreyta sig á stuttum æfingum þessu tengdu.
Þá kom m.a. fram að góður undirbúningur getur margfaldað árangur og hafa skal í huga að tengslamyndun getur átt sér stað við ýmis tækifæri, s.s. á ráðstefnu, í samkvæmi eða á íþróttaæfingu barna og mikilvægt að koma ávallt vel fyrir. Því  tengslamyndum snýst ekki um beina sölu - heldur um það hverjir þekkja okkur þegar þeir þurfa á okkur að halda.

Þörfin fyrir umræðuvettvang upplýsingatæknifyrirtækja um útflutning kom fram á hraðstefnumóti sem Íslandsstofa og SUT stóðu fyrir fyrr á þessu ári. Verkefnahópur var settur á fót og fyrsti fundurinn í nýrri fundaröð hefur þegar verið haldinn. Efni fyrsta fundar var samstarf fyrirtækja á erlendum markaði.

Nánari upplýsingar veitir Björn H Reynisson, bjorn@islandsstofa.is

Íslenskir listamenn hvísla leyndarmálum að íbúum Frankfurt

$
0
0

Undanfarna daga hafa íbúar í Frankfurt  fengið tækifæri til að uppgötva íslensk leyndarmál á fjölfarnasta torgi borgarinnar, Konstablerwache. Þar hefur verið settur upp stór hljóðskúlptúr þar sem íslenskir listamenn hvísla sínum leyndarmálum að borgarbúum. Hvíslendur eru þau Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur og Hallgrímur Helgason rithöfundur, ásamt tónlistarfólkinu Hauk Heiðari Haukssyni, Sigríði Thorlacius og Högna Egilssyni.

Uppátækið hefur vakið mikla athygli fjölmiðla og hefur meðal annars verið fjalla um það í Frankfurter Neue Presse, Bild, Rhein-Main Zeitung, Die Welt Kompakt og Frankfurter Stadtkurier, ásamt umfjöllun í sjónvarpi og útvarpi.

Gjörningurinn er hluti af Inspired by Iceland herferðinni, og miðar að því að hvetja íbúa í Frankfurt til að kynna sér þau fjölmörgu leyndarmál sem Ísland hefur upp á að bjóða. Rætt verður við gangandi vegfarendur og verður efnið notað til markaðssetningar á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland.

Á vinnusvæði Ísland – allt árið er hægt að kynna sér frekari upplýsingar um framvindu vetrarherferðarinnar ásamt því að skoða sýnishorn af þeim auglýsingum sem eru í birtingum á erlendum mörkuðum.

Nánari upplýsingar veita Guðrún Birna Jörgensen, gudrunbirna@islandsstofa.is og Daði Guðjónsson, dadi@islandsstofa.is

Sjá fleiri myndir hér að neðan

Vöxtur fyrirtækja og frumkvöðla kallar á rétt umhverfi

$
0
0

"Við Íslendingar stöndum frammi fyrir fjölmörgum áskorunum, en erum líka mjög lánsöm. Vegna starfa minna er ég mikið á ferðinni erlendis, en alltaf þegar ég kem heim, sé ég hvað við eigum efnilega og flotta sprota og vaxtarfyrirtæki, sem svo sannarlega eiga möguleika á því að vaxa og dafna svo fremi sem þeim er búið umhverfi, sem byggir á stöðugleika, aðgengi að menntuðu fólki og fjármagni,“ sagði Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentor og stjórnarformaður Íslandsstofu við setningu málstofa, sem fram fóru á Grand Hótel Reykjavík í dag, fimmtudaginn 28. nóvember og voru haldnar í tilefni af SME Week, Evrópsku fyrirtækjavikunni. Vilborg er talsmaður SME Week á Íslandi.  

„Viltu vaxa?“ var yfirskrift viðburðarins, sem innihélt fjórar málstofur um útflutning, tengslamyndun, fjármögnun og rannsóknir og nýsköpun. Vöxtur í víðum skilningi var því þemað að þessu sinni og málstofugestir voru á einu máli um að ekki væri nóg að einblína á vaxta- og veltutölur fyrirtækjanna enda væri persónulegur vöxtur og velferð sjálfra frumkvöðlanna ekki síður mikilvægur þáttur í allri sköpun.
HÉR MÁ SJÁ UPPTÖKU AF FUNDINUM 

SME Week í 37 Evrópulöndum

Undanfarin fjögur ár hefur ein vika á ári verið helguð nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum í Evrópu undir yfirskriftinni SME Week eða Evrópska fyrirtækjavikan. SME Week er haldin á vegum framkvæmdastjórnar ESB í 37 Evrópulöndum dagana 25.-30. nóvember.  Markmið vikunnar er að veita heildaryfirsýn og skapa umræðu um stuðningskerfi nýsköpunar fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig að ræða mikilvægi frumkvöðla og hvetja fleiri, sér í lagi ungt fólk, til að fara út í frumkvöðlastarf og síðast en ekki síst að veita frumkvöðlum viðurkenningu fyrir framlög sín til velferðarstarfa, nýsköpunar og samkeppnishæfni Evrópu. Samstarfsaðilar framkvæmdastjórnar ESB og framkvæmdaraðilar vikunnar á Íslandi eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Íslandsstofa, Rannís, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Þessi samstarfshópur úr íslenska stoðkerfinu hefur á þessum árum blásið í lúðra og haldið sameiginlegan viðburð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi.

Mikill kraftur býr í íslenskri þjóð

Að mati Vilborgar býr sérstakur kraftur í íslenskri þjóð, sem hún sagði að kannski hefði eitthvað með umhverfið og veðrið að gera. Sá kraftur væri nauðsynlegur í alla nýsköpun og uppbyggingu fyrirtækja.  „Í McKinsey-skýrslunnni, sem kynnt var fyrir um ári síðan, kom fram að ef við Íslendingar ætluðum okkur að vera í hópi þeirra þjóða, þar sem lífskjör eru hvað best í heiminum, þá yrðum við að byggja upp þekkingarfyrirtæki, sem geta farið á erlenda markaði og safnað gjaldeyri. Greinilegt er hvar vaxtarfærin okkar liggja, samkvæmt McKinsey. Við erum með sjávarútveg í heimsklassa. Við eigum orkuna, sem þarf að huga að. Við erum með ferðaþjónustu, sem fer sífellt stækkandi. Og við erum með vaxtarfyrirtæki, sem byggja á nýsköpun og framþróun. Við þurfum að hlúa að þessum geirum til þess að geta verið með heilbrigðis- og menntakerfi í heimsklassa. Við höfum alla möguleika á því að setja okkur það markmið að vera með besta menntakerfi í heimi. Til að við náum að halda í hagvöxtinn og vera meðal fremstu þjóða, þurfa frumkvöðlar, fyrirtæki og fjárfestar að taka höndum saman til þess að láta þessa draumsýn rætast því við viljum vaxa á alla kanta,“ segir Vilborg.

Sem talsmanni SME Week á Íslandi, sótti Vilborg SME Week í Brussel í fyrra þar sem Evrópusambandið kynnti stefnu og áherslur um lítil og meðalstór fyrirtæki og frumkvöðlar deildu reynslu sinni, gleði og sorgum. „Þar bar við kunnuglegt stef. Mikil umræða spannst um menntun og mikilvægi þess að huga að því hvers konar menntun við erum að bjóða fólkinu okkar. Skortur á tæknimenntuðu fólki bar einnig á góma. Rætt var um hvað væri til ráða til að fjölga kvenfrumkvöðlum, sér í lagi í tæknigeiranum. Og menn ræddu aðgengi að fjármagni,“ segir Vilborg og bætti við að þetta væru allt áskoranir, sem ættu við á Íslandi. Áskoranirnar væru hinsvegar kannski örlítið fleiri á Íslandi en annars staðar því í Brussel ræddu menn ekki gjaldeyrishöft, háa vexti eða íslensku krónuna.

Fjörugar umræður í fjórum málstofum

Í málstofu um útflutning töluðu Erlendur Steinn Guðnason, framkvæmdastjóri Stika, Inga Jessen, MSc í alþjóðaviðskiptum, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop og Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga. Málstofustjórinn Erlendur Steinn sagði í samantekt að líkja mætti áformum um útflutning við undirbúning maraþonhlaups. „Það þarf að skilgreina nákvæmlega hvaða árangri hlauparinn ætlar að ná og á hve löngum tíma. Það þarf að leita ráða hjá öðrum, sem hafa farið í svipaða vegferð áður, afla gagnlegra upplýsinga, vinna undirbúninginn vel og afla góðra samstarfsaðila. Útflutningur er vissulega langhlaup og gerist ekki á einni nóttu. Menn þurfa að vera tilbúnir í langt ferðalag til að koma vöru sinni á framfæri erlendis.“

Í málstofu um tengslanetið töluðu Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Norður & Co., Hildur Steinþórsdóttir, sem er í hönnunarteyminu „Klettur bekkur“, Arnheiður Hjörleifsdóttir, ferðafrömuður í Hvalfirði, og Haukur Guðjónsson, framkvæmastjóri Búngaló. Í samantekt málstofunnar sagði Garðar að tengslanetsmyndun snúist um að mynda langtíma sambönd sem byggðust á einlægni og heiðarleika auk sífellds endurmats á eigin getu og hæfni. „Öll tengslamyndun byrjar út frá manni sjálfum þar sem spurningarnar eru „Hver er ég?“, „Fyrir hvað stend ég?“ og „Hvern þekki ég?“ Og svo er mikilvægt að mynda tengsl á ólíklegustu stöðum með ólíklegasta fólki þar sem tveir heimar skarast. Í slíkum jarðvegi verða til nýjar hugmyndir og samskipti verða í fara í báðar áttir. Í þessu samhengi gefur klasasamstarf og aðstaða á setri góða möguleika fyrir ólíka geira að mynda tengsl, en fyrst og fremst snýst tengslamyndun um fólk og það að vera maður sjálfur“

Í málstofu um fjármögnun töluðu Árni Þ. Árnason, framkvæmdastjóri Oxymap, Ýmir Örn Finnbogason, fjármálastjóri Plain Vanilla, Guðmundur F. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keresis og Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGo. Málstofustjórinn Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður nýsköpunar- og stefnumótunarsviðs Samtaka iðnaðarins, sagði í sinni samantekt að mönnum væri gjarnan tíðrætt um stíflur á milli fyrirtækja og frumkvöðla í leit að fjármagni og svo fjármagnseigenda í leit að góðri arðsemi.  „Við eigum lífeyrissjóði, sem virðast hafa ótrúlega góð tök á því að finna sér lélegar fjárfestingar. Það þarf hinsvegar ekki nema smá neista til þess að kveikja á þeirri miklu orkusprengingu, sem getur orðið, ef fjármagnið og frumkvöðlarnir vinna saman því íslenska orkan er vissulega til staðar. Við þurfum bara að ná að beisla hana. Þeir Ýmir hjá Plain Vanilla og Guðmundur hjá Keresis sýndu fram á dæmi þar sem vel hefur tekist til með fjármögnun og sögðu grunn þess árangurs vera góða undirbúningsvinnu, öflugar viðskiptaáætlanir og óbilandi trú á viðskiptahugmyndina. Sú trú hafi smitast yfir til fjárfesta, sem hafi séð sér hag í að taka þátt í árangrinum.

Í málstofu um rannsóknir og nýsköpun töluðu Ágústa Guðmundsdóttir, rannsóknastjóri Zymetech, Björn L. Örvar, framkvæmdastjóri hjá ORF Líftækni, Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri Lauf Forks og Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical. Fyrirlesarar fóru í gegnum þróunarsögu fyrirtækjanna, miðluðu reynslu sinni af stoðumhverfinu og voru sammála um að styrkir til þróunarvinnu væru fjárfesting til framtíðar. Málstofustjórinn Sigurður Björnsson, sviðsstjóri rannsókna- og nýsköpunarsviðs Rannís, sagði að vandamálið, sem við væri að glíma, væri skilningsleysi stjórnvalda. „Það er verið að samþykkja nýja stefnu Vísinda- og tækniráðs þar sem talað er um að auka þurfi fjárfestingu í rannsóknum og þróun og að auka þurfi alþjóðastarf. Hinum megin við borðið er verið að skera niður. Það er því mikil þversögn í stefnu annars vegar og framkvæmd hinsvegar. Það er ljóst að ef við ætlum að standa við 3-4% hagvöxt á ári, þarf að ýta undir nýsköpun. Nýsköpun er forsenda hagvaxtar.“

 

 

The Secret Life of Walter Mitty felur í sér ómetanlega landkynningu

$
0
0

Ísland er sögusvið kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty  sem frumsýnd er nú í desember. Kvikmyndin er jólamynd kvikmyndaversins 20th Century Fox í ár og er því mikið lagt í markaðssetningu hennar. Stór landkynningartækifæri eru fyrir Ísland samhliða frumsýningu myndarinnar enda er landið í forgrunni í fjölmörgum senum í myndinni.

Íslandsstofa hefur, undir formerkjum Inspired by Iceland, unnið að því í náinni samvinnu við 20 th Century Fox og erlenda fjölmiðla að kynna land og þjóð í tengslum við frumsýningu myndarinnar.

Íslandsstofa átti í samstarfi við Fox Studios á forsýningu kvikmyndarinnar í París 9. desember s.l. að viðstöddum fulltrúum frá um 50 frönskum fjölmiðlum. Samhliða var efnt til spurningaleikja um Ísland í Frakklandi í samstarfi við m.a. National Géographic (vefsíða og sjónvarp), Canal+ (sjónvarp) og RTL (útvarp) þar sem ferðir til Íslands voru veittar í vinning.

Einnig stóð Íslandsstofa fyrir sérstakri forsýningu á kvikmyndinni fyrir breska miðla í London 16. desember. Þar fengu fjölmiðlar að kynnast íslenskri matargerð og Einar Hansen Tómasson, verkefnastjóri Film in Iceland, kynnti Ísland sem ákjósanlegt sögusvið kvikmynda á undan sýningu myndarinnar.

Þá skipulagði Íslandsstofa  blaðamannaferð til Íslands þar sem áhrifamiklir fjölmiðlar frá Bandaríkjunum heimsóttu tökustaði myndarinnar og kynntu sér Ísland. Í liðinni viku, þann 11. og 12. desember, var farið með hóp af fjölmiðlum á Suð-Austurland en þar á meðal voru sjónvarpsstöðvarnar Fox, CBS, NBC og VH1. Fulltrúar frá Ríki Vatnajökuls (Árdís Erna Halldórsdóttir og Guðrún Sigurðardóttir) tóku vel á móti hópnum á Höfn og aðstoðuðu jafnframt við að setja saman ævintýralega dagskrá á svæðinu. Mikil ánægja ríkti meðal gestanna en markaðsstjóri 20th Century Fox, Sue Warde, sem var með í för var svo yfir sig hrifin að hún hafði eftirfarandi að segja um upplifunina: “Iceland awakens all of the senses as a visually stunning country that, in both landscape and its people, touches your soul. That is #icelandsecret to me..,” en þarna er hún að vitna í vetrarherferð Inspired by Iceland/ Ísland – allt árið sem ber nafnið “Share the Secret”.
Ferðin var unnin í nánu samstarfi við 20th Century Fox. Gaman er að segja frá því að Ben Stiller hefur nú þegar lýst yfir ást sinni á Íslandi í spjallþáttum vestanhafs hjá bæði Ellen Degeneres og Conan O’Brien.

Ljóst er að kvikmyndir sem Walter Mitty varpa kastljósinu á land og þjóð og skapa þannig ómetanleg tækifæri til að kynna Ísland bæði sem áfangastað og sögusvið kvikmynda í framtíðinni.
Þá gætu fjölmörg tækifæri skapast fyrir ferðaþjónustu í tengslum við útkomu myndarinnar, ekki síst í formi svokallaðrar kvikmyndaferðamennsku, en myndin býður m.a. upp á möguleika í vöruþróun á sérstökum ferðum á tökuslóðir myndarinnar, í líkingu við þær ferðir sem þegar eru til um slóðir Game of Thrones.

Nánari upplýsingar veita:
Daði Guðjónsson, dadi@islandsstofa.is og
Líney Arnórsdóttir, liney@islandsstofa.is eða í síma 511 4000

Ljósmyndir: Daði Guðjónsson


Hollenskir fjárfestar með áform um ylræktarver fyrir tómata í Reykjanesbæ

$
0
0

Fjárfestingasvið Íslandsstofu, og áður Fjárfestingastofa, hefur lengi unnið að kynningu á möguleikum hér á landi til byggingar og reksturs ylræktarvera til framleiðslu á grænmeti til útflutnings. Sérstök áhersla hefur verið lögð á endurnýjanlega orku í því samhengi.

Á liðnum árum hafa allnokkrir erlendir og innlendir fjárfestar kannað forsendur fyrir ylræktarver en lítið orðið úr framkvæmdum. Nú er hins vegar svo komið að bæjarstjórn Grindavíkurbæjar hefur skrifað undir samning við hollenska fjárfestingarfyrirtækið EsBro Investment group um úthlutun lóðar og skipulagsvinnu fyrir ylræktarver skammt frá Reykjanesvita, samkvæmt frétt Morgunblaðsins (20.12.2013).

Í fréttinni kemur fram að hollenska fyrirtækið áætlar að byggja 15 hektara gróðurhús til framleiðslu á tómötum til útflutnings á lóðinni, sem er staðsett á iðnaðarsvæði við bæjarmörk Reykjanesbæjar. Fyrirtækið hefur þegar gert samning við verslunarkeðju á Bretlandi um kaup á allri framleiðslunni. Eigendur fyrirtækisins munu þó taka endanlega ákvörðun um hvort ráðist verði í verkefnið eða ekki um leið og allar forsendur liggja fyrir, líklega strax í janúar.

Rafljós verða notuð við tómataræktunina og verður 97% ljóssins skermað af til að koma í veg fyrir ljósmengun, þó að ekki séu miklar líkur á að íbúar eða gestir Bláa lónsins verði fyrir truflun af lýsingunni, að sögn Róberts Ragnarssonar, bæjarstjóra Grindavíkurbæjar.

Ef af verkefninu verður, mun framleiðslan að öllum líkindum hefjast næsta haust og fyrsta uppskeran fást í byrjun árs 2015. 

EsBro mun greiða kostnað við deiliskipulag og sjá um gatnagerð á staðnum ofl. Fyrirtækið hefur sótt um skattaívilnanir með fjárfestingarsamningi til nefndar um ívilnanir um nýfjárfestingar.

 

Samningur um Film in Iceland

$
0
0

Í gær undirrituðu iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu samning um að Íslandsstofa myndi áfram annast umsjón verkefnisins Film in Iceland í samræmi við lög um endurgreiðslu til kvikmynda- og sjónvarpsgerðar frá árinu 2001. Samningurinn gildir til  þriggja ára, eða út gildistíma laganna.

Íslandsstofa og forverar hennar, hafa haft umsjón með Film in Iceland verkefninu allt frá samþykkt laganna árið 2001. Hlutverk Íslandsstofu hefur verið að kynna lög um 20% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði fyrir erlendum kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendum annars vegar og hins vegar að kynna Ísland sem ákjósanlegan tökustað.

Ísland hefur verið vinsæll tökustaður fyrir bæði kvikmyndir og sjónvarpsþætti undanfarin ár. Má í því sambandi meðal annars nefna þættina Game of Thrones, og kvikmyndir á borð við The Secret Life of Walter Mitty og nú síðast Interstellar. Þessi verkefni hafa skilað miklu fyrir íslenskt þjóðarbú. Fjöldi starfa í kringum stór kvikmyndaverkefni geta skipt hundruðum, seldar eru þúsundir gistinátta á hótelum, tugir bílaleigubíla eru í útleigu auk annarrar þjónustu af ýmsum toga. Þá hefur tekist gott samstarf á milli Íslandsstofu og hinna erlendu framleiðendenda um kynningu á Íslandi í aðdraganda frumsýningar þeirra mynda sem hafa verið teknar upp hér á landi, sem kemur ferðaþjónustu mjög til góða.

Fjölmenni í sendiráðinu í Moskvu

$
0
0

Fjölmennt var í bústað Alberts Jónssonar, sendiherra í Moskvu, og Ásu konu hans í gær þar sem þau tóku á móti á áttunda tug rússneskra ferðaþjónustuaðila sem þangað voru komnir til fundar við fulltrúa íslenskrar ferðaþjónustu.

Fundurinn var skipulagður af Íslandsstofu og þótti vel heppnaður. Gestunum fannst mikið til þess koma að vera boðnir í glæsilegan bústað sendiherrans sem hefur hýst sendiráð Íslands í Moskvu í áratugi.

Fyrirtækin sem tóku þátt í fundinum voru Arctic Adventures, Bláa lónið, Bjarmaland Travel Ltd. Elding hvalaskoðun, Gray Line Excursions, HL Adventure, Iceland Travel, Icelandair, Icelandair Hotels, Lax-á, Nordic Luxury Ehf., Reykjavík Excursions, Stracta Hotels og Unique Iceland.

Að loknum fundum í Moskvu heldur hópurinn yfir til St.Pétursborgar þar sem Íslandsstofa hefur skipulagt vinnustofu fjórða árið í röð og er búist við álíka góðum viðtökum þar. 

Rússland er hratt vaxandi markaður og hefur fjöldi ferðamanna þaðan til Íslands vaxið árlega um og yfir 50% undanfarin tvö ár. Fundir af þessu tagi sýna mikilvægi þess að allir aðilar, jafnt einkafyrirtæki sem opinber, leggist saman á árarnar til eflingar ferðaþjónustunnar. 

Ísland vinsælt í Finnlandi

$
0
0

Íslandsstofa stóð fyrir ferð á Matka ferðakaupstefnuna í Helsinki dagana 16-19. janúar. Alls tóku átta íslensk ferðaþjónustufyrirtæki þátt og kynntu þjónustu sína, Elding, Keahótel, Íshestar, Terra Nova, Iceland Excursions, Iceland Travel,  Reykjavík Excursions og Snæland Travel, auk Icelandair í Finnlandi. Þá stóðu umboðsmenn MS í Finnlandi fyrir kynningu á skyri á staðnum, líkt og undanfarin ár, og fengu þúsundir gesta að smakka við góðar undirtektir.

Matka hefur vaxið ört og er orðin ein af helstu ferðakaupstefnunum á Norðurlöndunum. kaupstefnan er ekki einungis þýðingarmikil gagnvart finnska markaðinum heldur er hún einnig mjög mikilvægur vettvangur til að komast í kynni við ferðskrifstofur frá Rússlandi og öðrum CIS ríkjum, sem og frá Asíu. Um 67.000 gestir heimsóttu kaupstefnuna í ár þá fjóra daga sem hún stóð yfir, þar af rúmlega 13.000 fagaðilar. Ísland hefur verið sýnilegt á Matka síðan árið 1999 og miðað við þær viðtökur sem þjóðarbásinn hefur fengið undanfarin ár má ætla að þátttaka Íslands hafi verið fest þar í sessi.

Samhliða kaupstefnunni fóru fram pallborðsumræður þar sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, var sérstakur gestur, ásamt Juhan Parts, viðskiptaráðherra Eistlands og Jan Vapaavuori, viðskiptaráðherra Finnlands. Ráðherrarnir þrír ræddu framtíð ferðaþjónustunnar og mynduðust skemmtilegar umræður þeirra á milli.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá kaupstefnunni

Uppselt á vinnustofu um val á samstarfsaðilum á erlendum markaði

$
0
0

Íslandsstofa stóð fyrir vinnustofu á dögunum sem bar yfirskriftina „Val á samstarfsaðilum á erlendum markaði".
Þar fór Mark Dodsworth, framkvæmdastjóri Europartnership Itd, yfir ýmis atriði sem tengjast því að finna og velja umboðs- og dreifiaðila, s.s. verksvið þessara aðila og mikilvægi löglegra samninga. 

Fram hefur komið í rannsóknum að val á samstarfsaðilum getur verið hin mesta áskorun í alþjóðavæðingu fyrirtækja. Því er mikilvægt að skoða vel hvaða dreifileið hentar fyrirtækinu best, og að þetta sé gert með faglegum hætti. Íslandsstofa býður fram aðstoð við að setja upp fundi við hugsanlega samstarfsaðila á erlendum markaði undir verkefninu Útstím. Nánari upplýsingar um Útstím má finna hér.

Þá má nefna að Íslandsstofa mun bjóða upp á vinnustofu 21. febrúar um sölu- og kynningartækni á erlendum mörkuðum. Nánari upplýsingar síðar á heimasíðu Íslandsstofu.

Nánari upplýsingar um vinnustofuna veitir Björn H Reynisson, bjorn@islandsstofa.is

Viewing all 892 articles
Browse latest View live