Quantcast
Channel: islandsstofa.is
Viewing all 892 articles
Browse latest View live

Íslandsstofa stóð fyrir fjölmiðlaferð á tökuslóðir Game of Thrones

$
0
0

Íslandsstofa skipulagði og stóð fyrir fjölmiðlaferð með HBO sjónvarpsstöðinni á tökuslóðir Game of Thrones í Mývatnssveit í síðustu viku. Fjölmennur hópur boðsgesta var þar með í för, m.a. 18 blaðamenn frá fjölmiðlum í Evrópu og Bandaríkjunum, ásamt aðilum frá Pegasus og Iceland Travel.

Þeir erlendu fjölmiðlar sem tóku þátt voru BBC, Financial Times, E!, National Post og People Magazine, svo einhverjir séu nefndir. Umfjöllun þeirra mun birtast í febrúar samhliða útgáfu þriðju seríu Game of Thrones þáttanna á DVD. 

Ísland hefur verið í brennidepli undanfarið vegna kvikmynda sem teknar hafa verið upp hér á landi og hefur Íslandsstofa unnið náið með kvikmyndaverunum við markaðssetningu landsins í tengslum við myndirnar. Má þar helst nefna samstarf við 20th Century Fox vegna The Secret Life of Walter Mitty og Disney vegna Thor 2.  

Þess má geta að fyrr í vikunni völdu lesendur breska tímaritsins Radio Times Ísland sem mest heillandi tökustað ársins 2013 fyrir sjónvarpsþáttaröðina Game of Thrones.


Chris Newman, framleiðandi Game of Thrones í viðtali við BBC. Mynd tekin við Námaskarð

Stockholm Furniture Fair sýningin fer vel af stað

$
0
0

 

 

 

 

 

 

 

 



Á. Guðmundsson, Bryndís Bolladóttir og Erla Sólveig Óskarsdóttir taka þátt í Stockholm Furniture Fair sýningunni sem stendur yfir fram á laugardag. Fyrirtækin taka þátt í samvinnu við Íslandsstofu.
Sýningin fór vel af stað og hefur íslensku hönnuninni verið sýndur mikill áhugi.

Á. Guðmundsson leggur að þessu sinni áherslu á stóla. Annars vegar er fyrirtækið að kynna skrifstofustóla sem eru hannaðir af Gudrúnu Margréti og Oddgeiri þórðarsyni og hins vegar Spuna og Sprota, stóla sem eru hannaðir af Erlu Sólveigu Óskarsdóttir og hafa fengið verðskuldaða athygli á sýningunni.

Bryndís Bolladóttir kynnir hljóðlausnir en hún hefur sérhæft sig í ýmsum hljóðlausnum á veggi. Kúla er ein af þessum lausnum en hún þjónar þrenns konar tilgangi í senn; fyrir dreifingu og dempun hljóðs og sem veggverk. Þá kynnir Bryndís nýtt ljós á sýningunni sem einnig hefur notagildi hljóðdreifingar. Bryndís notar m.a. íslensku ullina sem nýtist einstaklega vel i hljóðlausnir. Hljóðmengun er víðtækt vandamál og hefur hún því fengið góðar móttökur á sýningunni.

Erla Sólveg Óskarsdóttir sýnir sófann Dyngju með glænýjum hægindastól í stíl. Einnig kynnir hún til leiks Hyrnu borðin sem eru framleidd á Íslandi. Sem dæmi um velgengni Erlu á sýningunni má nefna að aðeins tveimur tímum eftir að hún opnaði hafði þekktur danskur húsgagnaframleiðandi tryggt sér framleiðsluréttinn á þessum húsgögnum. 

Á Stockholm Furniture Fair er einnig líkan af Stöðinni eftir dansk-íslenska arkitektafélagið KRADS og verður verkið til sýnis á sýningarbás sænska hlaðvarpans Summit. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá íslenska básnum

Nánari upplýsingar veitir Berglind Steindórsdóttir, berglind@islandsstofa.is

Vefsíða Stockholm Furniture Fair

Íslensk ferðaþjónusta kynnt í Bretlandi

$
0
0

Þessa dagana eru fulltrúar frá íslenskum fyrirtækum og markaðsstofum landshlutanna á ferð um England og Skotland. Markmiðið er að skapa tengsl við breska ferðaskipuleggjendur og kynna þeim Ísland sem áfangastað. Skipulagðar voru kynningar í borgunum Manchester, Bristol, Edinborg og Glasgow og að þeim loknum hefur verið boðið upp á fundi milli fyrirtækja þar sem möguleikar á samstarfi voru skoðaðir.

Íslensku fyrirtækin sem taka þátt eru Elding hvalaskoðun, Ferðaskrifstofa GJ, Iceland Excursions, Iceland Travel, Icelandair, Northern Explorer, Mountaineers, Reykjavík Excursions, Special Tours, Snæland og Terra Nova, ásamt fulltrúum frá markaðsstofum Suðurlands og Norðurlands. 

Samstarfsaðili Íslandsstofu, Europartnership í Englandi, hefur unnið við undirbúning ferðarinnar og kom á fundum við áhugaverð fyrirtæki á hverjum stað. Þá var fulltrúi frá sendiráði Íslands í London viðstaddur fundina, fyrirtækjunum til halds og trausts. 

Vonir standa til að Bretlandsferðin muni skila sér í auknum straumi ferðamanna frá borgunum fjórum, ekki síst þar boðið er upp á beint flug til Íslands frá öllum þessum stöðum. 

Tilnefningar til Ímark

$
0
0

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lúðurinn, Íslensku auglýsingaverðlaunin, fara fram þann 21. febrúar næstkomandi. Auglýsingaherferð Inspired by Iceland frá fyrra ári, Iceland by Another Name er tilnefnd til verðlauna í tveimur flokkum. Annars vegar sem Auglýsingaherferð ársins og hins vegar fyrir stafrænar auglýsingar/samfélagsmiðla. 

Uppselt á vinnustofu um sölu- og kynningartækni

$
0
0

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færri komust að en vildu á vinnustofu Íslandsstofu sl. föstudag sem bar heitið „Sölu- og kynningartækni á erlendum markaði“ þar sem farið var yfir ýmis lykilatriði tengd viðfangsefninu.

Þar var meðal annars fjallað um mikilvægi þess að þekkja og skilja þarfir viðskiptavina sinna, þörfina fyrir að taka mið af mismunandi menningarheimum og mikilvægi góðs undirbúnings. Leiðbeinandi á vinnustofunni, Chris Bowerman, stjórnandi og meðeigandi Tripos Consultants á Englandi, lét þátttakendur leysa ýmsar stuttar æfingar tengdar viðfangsefninu og spunnust þar líflegar umræður. 

Vinnustofan gekk vel fyrir sig og voru viðstaddir almennt ánægðir með útkomuna.

Nánari upplýsingar veitir Björn H Reynisson, bjorn@islandsstofa.is

 

Ákveðið að halda áfram með markaðsátak í Suður-Evrópu

$
0
0

Ákveðið hefur verið að halda áfram með sameiginlegt markaðs- og kynningarverkefni íslenskra saltfiskframleiðenda í Suður-Evrópu, sem hófst í febrúar í fyrra og hefur skilað ágætum árangri. Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu segir áherslu hafa verið lagða á að kynna gæði og ferskleika afurða sem eiga uppruna í hreinu hafsvæði þar sem stundaðar eru ábyrgar fiskveiðar. Verkefnið er unnið á Spáni, Portúgal og Ítalíu.

Verkefnið byggir annars á þeirri meginstefnu sem mörkuð hefur verið í kynningarstarfi í sameiginlegu markaðsstarfi fyrir íslenskar sjávarafurðir hjá Íslandsstofu í gegnum Iceland Responsible Fisheries og kynningu á Íslandi  og íslenskum uppruna á erlendum mörkuðum undir yfirskriftinni „Taste and share the secret of Icelandic Bacalao."

„Markmiðið hefur verið að styrkja orðspor og ímynd íslensks saltfisks sem úrvals afurða með því að vekja athygli á íslenskum uppruna og sérstöðu sem byggir á gæðum og hreinleika. Við höfum farið óhefðbundnar leiðir, nýtt okkur markaðsstarf og almannatengsl í gegnum stafræna miðlun, myndbönd og samfélagsmiðla samhliða kynningum fyrir fjölmiðlafólk,“ segir Guðný.

Þegar hefur verið efnt til vel heppnaðra kynninga í Barcelona, Bilbao og Lissabon í samvinnu við þekkta matreiðslumenn og viðurkennda veitingastaði. Þar hefur glöggt komið í ljós að sterk hefð er á meðal neytenda fyrir neyslu á íslenskum saltfiski í þessum löndum þótt hart sé sótt að íslenskum framleiðendum með ódýrari vöru sem ekki uppfyllir sömu gæði.

Guðný segir ljóst að verkefninu verði haldið áfram a.m.k. út þetta ár en ekki sé ljóst hvað taki við að þeim tíma liðnum. „Þau viðbrögð sem við höfum þegar fengið hafa verið mjög jákvæð og áhugi fjölmiðla vekur þær vonir að hægt sé að gera enn betur,“ segir Guðný Káradóttir.

 

 

Mikill áhugi á Íslandsferðum á Jótlandi

$
0
0

Íslandsstofa var með þjóðarbás á ferðasýningunni Ferie for alle sem haldin var í bænum Herning á Jótlandi dagana 21 - 23. febrúar sl.
Fyrirtækin sem stóðu vaktina með Íslandsstofu voru Icelandair, Island ProTravel, BP Travel, North Travel og Skorrahestar, en allt eru þetta sérhæfðir söluaðilar á Íslandsferðum. 

Talsverður fjöldi gesta sótti Ferie for alle, en samhliða sýningunni fór fram húsbílakynning sem einnig dró að fjölda fólks. Gestir á sýningunni þetta árið voru um 65.000 og sýnendur rúmlega 1.000 talsins. 

Mikill áhugi er á Íslandi á Jótlandi og ekki spillir þar fyrir að boðið er upp á beint flug frá Billund til Íslands yfir sumartímann.

 

Inspired by Iceland leitar að heimsins hugrakkasta ferðamanni

$
0
0

100.000 fararstjórar, 1 ævintýraleg ferð                                                               
Leit stendur nú yfir að heimsins hugrakkasta ferðamanni. Það er Inspired by Iceland sem býður áhugafólki um Ísland óvenjulegt tækifæri til að kynnast landinu í gegnum ævintýralegt ferðalag þar sem leitað verður til rúmlega 100.000 fylgjenda Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum til að stinga upp á áfangastöðum og afþreyingu.

Þeir sem telja sig eiga titilinn skilið geta tekið þátt í leik á vegum Inspired by Iceland. Sigurvegara leiksins verður boðið til landsins ásamt ferðafélaga í sjö daga ævintýrareisu um Ísland þar sem rúmlega 100.000 fylgjendur Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum geta haft áhrif á ferðalagið.

Fylgjendur Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum geta stungið upp á leyndarmálum sem sigurvegarinn fær að kynnast á leið sinni um landið, en dagskrá hvers dags verður leyndarmál. Með í för verður kvikmyndatökumaður sem mun gera ferðalaginu skil í stuttri kvikmynd um þetta ævintýralega ferðalag um Ísland.

Leikurinn er hluti af „Share the Secret“ herferðinni sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir í vetur. Herferðin miðar að því að gefa ferðalöngum kost á því að kynnast leyndardómum Íslands og eru Íslendingar hvattir til að segja frá skemmtilegum hugmyndum sem hægt er að njóta í kringum landið sem ekki hafa notið nægilegrar athygli.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu segir: „Ísland er fullt af ævintýralegum tækifærum sem fáir vita af og eru einfaldlega ekki á kortinu hjá erlendum ferðamönnum. Höfuðborgin og hver og einn landshluti býr yfir spennandi svæðum, fólki, skemmtilegri menningu, góðum mat, töfrandi slóðum og afþreyingu. Við viljum því gefa ferðamönnum tækifæri til að uppgötva íslensk ævintýri um allt land og ekki síður að gefa Íslendingum tækifæri á að benda ferðamönnum á það sem þeir ættu ekki að láta framhjá sér fara sem hægt er að upplifa allan ársins hring.

Samfélagsmiðlar Inspired by Iceland:

Facebook
Twitter
Instagram
Heimasíða

Um Ísland - allt árið:
Ísland - allt árið er samþætt markaðsverkefni sem miðar að því að efla vetrarferðaþjónustu og jafna árstíðarsveiflu í íslenskri ferðaþjónustu. Verkefnið vinnur undir vörumerki Inspired by Iceland.
Aðstandendur verkefnisins eru iðnaðarráðuneytið, fjármálaráðuneytið, Icelandair, Reykjavíkurborg, Isavia, Landsbankinn, Samtök ferðaþjónustunnar, og Samtök verslunar og þjónustu. Íslandsstofa annast framkvæmd verkefnisins, en alls taka rúmlega 100 fyrirtæki þátt í verkefninu.

Frekari upplýsingar veita:
Daði Guðjónsson, dadi@islandsstofa.is eða í síma 891 9239
Inga Hlín Pálsdóttir, inga@islandsstofa.is eða í síma 824 4375

 
 

 


Sendiherrar í París og Helsinki í heimsókn

$
0
0

Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í París og Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Helsinki verða til viðtals 13. og 14. mars nk.

Þeir aðilar sem vilja ræða viðskiptamöguleika, menningartengd verkefni og önnur hagsmunamál í umdæmi sendiráðanna, þar sem utanríkisþjónustan getur orðið að liði, geta bókað fund með viðkomandi sendiherra.

Fimmtudaginn 13. mars, verður Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í París til viðtals en auk Frakklands eru umdæmislönd sendiráðsins Alsír, Andorra, Djíbútí, Ítalía, Líbanon, Marokkó, Spánn og Túnis.

Föstudaginn 14. mars, verður Kristín A. Árnadóttir, sendiherra Íslands í Helsinki til viðtals en auk Finnlands eru umdæmislönd sendiráðsins: Eistland, Lettland, Litháen og Úkraína.

Fundirnir verða haldnir á skrifstofu Íslandsstofu, Sundagörðum 2, 7. hæð og má bóka þá í síma 511 4000 eða með tölvupósti, islandsstofa@islandsstofa.is

Nánari upplýsingar veita Andri Marteinsson, andri@islandsstofa.is og
Erna Björnsdóttir, erna@islandsstofa.is

Ísland heitt í Kanada

$
0
0

Í tilefni fjölgunar áfangastaða Icelandair í Vesturheimi efndi Íslandsstofa til vinnufunda í borgunum Vancouver, Calgary og Edmonton, í samvinnu við Icelandair. Fundirnir fóru fram í síðustu viku og voru vel sóttir, en alls komu um 90 manns til að hlýða á Íslandskynningar og til fundar við fulltrúa íslenskra fyrirtækja sem tóku þátt. 


Mikill áhugi var á vinnufundunum á meðal kanadískra ferðasöluaðila sem vildu kynna sér þá þjónustu sem í boði er á Íslandi. Þau fyrirtæki sem tóku þátt frá Íslandi voru Flugfélag Íslands, Bláa lónið, GT Travel, GoNorth, Iceland Travel, Iceland Excursions, Gray Line Iceland, Icelandair, Icelandair Hotels, Hótel Keflavik, Radisson BLU Saga Hotel, Reykjavík Excursions og Snæland Travel, auk fulltrúa markaðsstofa landshlutanna.

Icelandair hóf beint flug til Edmonton 5. mars sl. og frá og með 13. maí nk. verður einnig boðið upp á beint flug til Vancouver. Þess má geta að kanadískum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað verulega á síðustu árum. Árið 2003 voru gestir frá Kanada einungis um 2.500 talsins en árið 2013 hafði þeim fjölgað í tæplega 24.000, eða tífalt á 10 árum. Janúarmánuður gefur fyrirheit um frekari fjölgun en aukning í komum Kanadamanna nam 152% miðað við janúar í fyrra. 

Sendinefnd frá Edmonton í heimsókn

$
0
0

Á mánudag stóð Íslandsstofa fyrir fundi þar sem rúmlega 20 manna sendinefnd frá Edmonton í Kanada fékk kynningu á íslensku atvinnulífi og rætt var um möguleika í samstarfi Íslands og Albertafylkis.


Sendinefndin hafði mikinn áhuga á að kynna sér aðstæður hérlendis, ekki síst þar sem Ísland hefur færst talsvert nær Edmonton með tilkomu beins flugs Icelandair þangað árið um kring. Þetta skapar m.a. möguleika á sölu á ferskum fiski langt inn á sléttur Kanada.
Sendinefndin sem skipuð var leiðtogum úr atvinnulífi Albertafylkis var skipulögð af verslunarráði fylkisins í samvinnu við sendiráð Kananda hér á landi.

Á fundinum voru flutt nokkur fróðleg erindi bæði um íslenskar aðstæður og um stöðu mála í Albertafylki. Kynningar ræðumannanna má nálgast hér að neðan.

Þórðar Hilmarsson, Íslandsstofu 
Eyjólfur Árni Rafnsson, Mannviti 
Brad Ferguson, Edmonton Economic Development Corporation 
James Cumming, Chamber of Commerce 
Tom Ruth, Edmonton International Airport 
Bala Kamallakharan, frumkvöðull og fjárfestir

 

 

Hugrakkasti ferðamaðurinn

$
0
0

Jennifer Asmundson frá Seattle í Bandaríkjunum hefur hlotið titilinn Hugrakkasti ferðamaðurinn. Hún var valin sigurvegari í leik sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir þar sem leitað hefur verið að hugdjörfum ferðalangi til þess að ferðast um landið í vikutíma undir fararstjórn rúmlega 100.000 fylgjenda Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum. Þátttakan í leiknum gekk framar vonum en alls bárust rúmlega 4.500 umsóknir allstaðar að úr heiminum frá hugdjörfum einstaklingum.

Inspired by Iceland hefur undanfarið óskað eftir tillögum að skemmtilegum áfangastöðum og ævintýralegum lífsreynslum á samfélagsmiðlum sínum. Fjöldi fólks hefur brugðist við og sent inn hugmyndir sem nýttar verða til að skipuleggja sjö daga ferð um landið fyrir Jennifer Asmundson en ævintýraför hennar hefst í dag Með í för verður hópur kvikmyndagerðamanna sem mun vinna stutta heimildamynd um ferðalagið.

Það vill svo til að Jennifer Asmundsson er af íslensku bergi brotin. Afi hennar var fæddur hér á landi, en fluttist ungur til vesturheima. „Þetta er ótrúlegt tækifæri,“ segir Jennifer. „Ég er kokkur, og afi minn var Íslendingur. Hann dó þegar ég var ung, áður en hann gat kennt mér neitt um tungumálið, eða íslenskar matarhefðir. Ég er mjög spennt að fræðast um Ísland, og læra um jarðhita og íslenskar matarvenjur og uppgötva leyndarmál Íslands frá fyrstu hendi.“

Sjálf er Jennifer þaulvanur ferðalangur en hún hefur áður ferðast víða um Evrópu, Mið-Ameríku og Eyjaálfu. Þetta er hennar fyrsta ferð til Íslands. Ferðalag Jennifer um landið verður skipulagt í samráði við fylgjendur Inspired by Iceland á samfélagsmiðlum, en dagskrá hvers dags verður leyndarmál. Hægt verður að fylgjast með ferðalaginu í gegnum samfélagsmiðla Inspired by Iceland.

Leikurinn er hluti af „Share the Secret“ herferðinni sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir í vetur. Herferðin miðar að því að gefa ferðalöngum kost á því að kynnast leyndardómum Íslands og eru Íslendingar hvattir til að segja frá skemmtilegum ævintýrum í kringum landið sem ekki hafa notið verðskuldaða athygli ferðamanna.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu segir: „Ísland er fullt af ævintýralegum tækifærum sem fáir vita af og eru einfaldlega ekki á kortinu hjá erlendum ferðamönnum. Höfuðborgin og hver og einn landshluti býr yfir spennandi svæðum, fólki, skemmtilegri menningu, góðum mat, töfrandi slóðum og afþreyingu. Við viljum því gefa ferðamönnum tækifæri til að uppgötva íslensk ævintýri um allt land og ekki síður að gefa Íslendingum tækifæri á að benda ferðamönnum á það sem þeir ættu ekki að láta framhjá sér fara sem hægt er að upplifa allan ársins hring.

Mikilvægi menningarlæsis í alþjóðaviðskiptum

$
0
0

Íslandsstofa stóð á dögunum fyrir vinnustofu um menningarlæsi í alþjóðaviðskiptum þar sem Kína, Noregur, Þýskaland og Bretland voru í forgrunni. Þar var m.a. farið yfir hvernig hægt er að láta menningarmun vinna með sér í stað þess að vera hindrun í samskiptum. Meðal þess sem kom fram var að nauðsynlegt er að átta sig á hvað menningarmismunur er og hvernig litið er á eigin menningu áður en hafist er handa við að greina aðra menningarheima. Á vinnustofunni sköpuðust áhugaverðar umræður um málefnið meðal þátttakenda.

Leiðbeinandi var Guðjón Svansson en hann hefur 15 ára reynslu af kennslu, þjálfun og ráðgjöf varðandi menningarmun í alþjóðaviðskiptum.

Nánari upplýsingar um vinnustofuna veitir Björn H Reynisson, bjorn@islandsstofa.is

Hér að neðan má sjá myndir frá vinnustofunni

TUR ferðakaupstefnan í Gautaborg að baki

$
0
0

Íslandsstofa stóð fyrir þátttöku á ferðakaupstefnunni TUR í Gautaborg dagana 20.-23. mars sl. Kaupstefnan fer fram árlega en þar koma saman ferðasöluaðilar víðsvegar að úr heiminum til að kynna áfangastaði sína, auk fjölmargra annarra fyrirtækja. 

Efnt var til móttöku fyrir fagaðila á þjóðarbási Íslands þar sem boðið var upp á léttar veitingar og íslensku fyrirtækin fengu tækifæri til að kynna vöruframboð sitt. Talsverður fjöldi mætti á móttökuna eða um 200 manns og þótti hún vel heppnuð.

Fyrirtækin sem tóku þátt fyrir hönd Íslands þetta árið voru Icelandair, Islandia Travel AB, Hótel Selfoss, Reykjavík Excursions, Snæland Travel og Northern Explorer. 

Gestir á TUR voru um 35.000 talsins, þar af rúmlega 10.000 fagaðilar sem er aukning frá síðasta ári.

Mulier hlýtur sérstök verðlaun frá Íslandsstofu fyrir þátttöku í Gullegginu 2014

$
0
0

Fyrr í mánuðinum voru úrslit í frumkvöðlakeppninni Gullegginu tilkynnt en fyrirtækið Gracipe var kjörið sigurvegari keppninnar.
Þá hlaut undirfatafyrirtækið Mulier sérstök aukaverðlaun frá Íslandsstofu í formi útflutningsstuðnings að andvirði 250.000 kr.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Gulleggið 2014 við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík. Keppnin í ár er sú fjölmennasta frá upphafi en alls stóðu 697 þátttakendur að þeim 377 hugmyndum sem bárust keppninni að þessu sinni.

Eins og áður segir var það fyrirtækið Gracipe sem stóð uppi sem sigurvegari í ár en fyrirtækið setur fram mataruppskriftir á nýjan hátt með því að sameina hráefni, aðgerðir og skref í myndrænni framsetningu.

Annað sætið hlaut fyrirtækið Radiant Games en það er framsækið sprotafyrirtæki sem hefur það að markmiði að nútímavæða menntun með því að þróa næstu kynslóðar námsgögn. Námsefnið sem um ræðir er íþrótta- og tómstundaleikir fyrir spjaldtölvur, sem eru sniðnir fyrir börn á fyrstu árum grunnskóla með það að markmiði að kenna rökfræðilega hugsun og gildi forritunar.

Í þriðja sæti var Solid Clouds en fyrirtækið þróaði og hannaði tölvuleikinn PROSPER sem er herkænskuleikur sem gerist í geimnum. Leikurinn er spilaður í rauntíma í sama heiminum af þúsundum spilara samtímis og tekur heila sex mánuði að ljúka hverjum leik.

Frumkvöðlakeppnin Gulleggið fór fyrst fram árið 2008 en síðan þá hafa alls 1703 hugmyndir borist í keppnina. Fjölmörg starfandi fyrirtæki hafa stigið sín fyrstu skref á þessum vettvangi og má þar m.a. nefna Meniga, Clara, ReMakeElectric, Cooori, Betri svefn, Silverberg, Activity Stream, Nude Magazine o.fl.


Áhugaverð ráðstefna um þróun og áskoranir í matarferðamennsku

$
0
0

Matvælalandið Ísland stóð fyrir ráðstefnu þann 20. mars sem bar yfirskriftina „Vöxtur í ferðaþjónustu – er maturinn tilbúinn?“ Á ráðstefnunni var fjallað um þróun matarferðamennsku, hérlendis og erlendis, og þau tækifæri og þær áskoranir sem í henni felast. Ráðstefnan var vel sótt en 180 manns mættu til að kynna sér málefnið.

Matvælalandið Ísland er samstarf aðila í matvælageiranum sem Íslandsstofa tekur þátt í ásamt m.a. Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Matís og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Markmiðið með samstarfinu er m.a. að bæta samvinnu og gegnsæi í matvælageiranum, skoða vaxtarbrodda og tækifæri og stuðla að nýsköpun, verðmætasköpun og aukinni framleiðni.*

Á ráðstefnunni ræddi Ami Hovstadius frá VisitSweden um reynslu Svía af markaðssetningu Svíþjóðar sem matvælalands. Laufey Haraldsdóttir, lektor í Háskólanum á Hólum, greindi frá þróun matarferðaþjónustu á Íslandi og Mário Frade, vörumerkjastjóri, Nóa Síríusi, lýsti því hvernig fyrirtækið hefur þróað markaðsáætlanir með það að markmiði að höfða til ferðamanna.
Í öðrum hluta ráðstefnunnar var rætt um viðbrögð Íslendinga við auknum fjölda ferðamanna, framboð af íslensku hráefni og veitingaþjónustu og hvernig menningar- og matartengd ferðaþjónusta hefur þróast á síðustu árum. 

Á eftir erindunum var boðið upp á pallborðsumræður en þar tóku þátt Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá SAF. 

Nánari upplýsingar um dagskrána og upptökur af erindunum má finna
á vef Bændasamtakanna.

*Matvælalandið Ísland stefnir að því að ná settu marki með því að vekja athygli á því sem vel er gert ásamt því sem þarf að gera, stuðla að samantekt á gögnum og kortlagningu um stöðu matvælaframleiðslu, skilgreina áherslusvið þar sem þörf er á samstarfi og efla sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Íslensk menning kynnt í Edmonton og Boston

$
0
0

Íslandshátíðin Taste of Iceland fór fram í Edmonton dagana 5.-8. mars og Boston 14.-18. mars. Þar fengu heimamenn kynningu á íslenskri matar- og tónlistarmenningu. Blásið var til tónleika í borgunum, ásamt New York og Maine, þar sem fram komu Hermigervill, Sin Fang, Lay Low og Retro Stefson. Yfir 2000 gestir sóttu Boston tónleikana og komust færri að en vildu.
Veitingastaðirnir Characters í Edmonton og Rialto í Boston buðu upp á sérstakan Íslandsmatseðil en þar eldaði m.a. matreiðslumeistarinn Hákon Már Örvarsson dýrindis rétti fyrir gesti úr íslensku hráefni.  Þá var boðið upp á kokteilnámskeið fyrir áhugasama sem fengu kennslu í að blanda margvíslega drykki úr Reyka vodka. Inspired by Iceland stóð að leyndarmálum eða Iceland Secrets sem gestir á öllum viðburðum hátíðarinnar gátu fundið, en hátíðin var í samstarfi við Inspired by Iceland. Taste of Iceland viðburðurinn er skipulagður af Iceland Naturally, verkefni sem Íslandsstofa rekur með aðalræðismanni Íslands í New York og miðar að því að kynna íslenskar vörur og þjónustu.

Sjáið myndir á Facebook síðu Taste of Iceland

Ísland tekur þátt á ferðakaupstefnu í Moskvu

$
0
0

Íslandsstofa tók í fyrsta skipti þátt í MITT ferðakaupstefnunni í Moskvu dagana 19. - 23. mars sl.

Íslandi var boðið sérstaklega til þátttöku af aðstandendum sýningarinnar sem er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Íslandsstofa naut þar dyggrar aðstoðar frá sendiráði Íslands í Moskvu með Albert Jónsson sendiherra í broddi fylkingar. Meira um málið á facebook síðu sendiráðsins

Sýningin stóð yfir í fjóra daga en þar voru samankomnir um 1800 sýnendur frá 200 löndum. Sýnendur lögðu undir sig 55.000 fermetra sýningarsvæði í níu sýningarhöllum, en til samanburðar má geta þess að stærri salurinn í Laugardalshöll er um 5000 fermetrar. Gestir á svæðinu voru 38.000 talsins og þar af komu um 70% úr röðum ferðaþjónustuaðila. Heimsóknir voru þó tæplega helmingi fleiri eða um 74.000 þar sem fjölmargir komu oftar en einu sinni til að ná að komast yfir allt sýningarsvæðið.

Rússland er það markaðssvæði í ferðaþjónustu sem er að vaxa hvað hraðast. Rússneskum gestum á Íslandi fjölgaði úr 1770 í tæplega 7000 á árunum 2010-2013 og eykst fjöldi þeirra stöðugt er sýna því áhuga að koma hingað til að njóta náttúrunnar og ýmiskonar afþreyingar. 

Íslandsstofa tilnefnd til verðlauna fyrir markaðssetningu á Íslandi

$
0
0

Íslandsstofa er tilnefnd fyrir góðan árangur í markaðsstarfi áfangastaða á Routes Europe sem er vettvangur fagaðila er tengjast flugmálum á einhvern hátt í Evrópu.
Verðlaunin þykja mjög virt og lítum við á það sem mikinn heiður að hafa verið tilnefnd. Sjá nánar um verðlaunin 

Vetrarherferð Ísland - allt árið og framtíðarsýn í markaðssetningu rædd á fundi

$
0
0

Hátt í 60 manns mættu á upplýsinga- og vinnufund Ísland - allt árið síðastliðinn föstudag á Icelandair Hotel Reykjavik Natura. Markmið fundarins var að fara yfir stöðu vetrarherferðarinnar 2013-2014 ásamt áhuga og viðhorf þátttakenda til verkefnisins. Þá tók við vinnustofa þar sem ræddir voru möguleikar á að stilla enn frekar saman strengi í markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar og framtíðarsýn verkefnisins skoðuð.
Almenn ánægja ríkti meðal þátttakenda á fundinum og munu niðurstöðurnar án efa nýtast vel í framtíðinni. Íslandsstofa þakkar þeim sem sóttu fundinn kærlega fyrir þeirra framlag.

Erindin sem haldin voru á fundinum voru eftirfarandi (sjá pdf að neðan):

  • Ávarp stjórnarformanns Ísland – allt árið
    Helga Haraldsdóttir
  • Viðhorf gagnvart Íslandi sem áfangastað
    Ólafur Þór Gylfason, framkvæmdastjóri MMR
  • Vetrarherferð 2013 – 2014
    Daði Guðjónsson, verkefnisstjóri Ísland – allt árið hjá Íslandsstofu
  • Leiðarljós í markaðssetningu og vinnufundur með þátttakendum Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu

Hér má nálgast erindin (pdf).

Nánari upplýsingar veitir Daði Guðjónsson, dadi@islandsstofa.is

 

Viewing all 892 articles
Browse latest View live