Quantcast
Channel: islandsstofa.is
Viewing all 892 articles
Browse latest View live

Fyrirtækið Meniga hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2014

$
0
0

Fyrirtækið Meniga hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2014 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun, en Meniga er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem er markaðsleiðandi í Evrópu á sviði heimilisfjármálahugbúnaðar, með sautján viðskiptavini í fjórtán löndum. Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Meniga, veitti verðlaununum viðtöku. Á Nýsköpunarþingi var fjallað um vaxtarferli fyrirtækja og sóttu rúmlega 200 manns þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.

Meniga rekur heimilisfjármálavefinn meniga.is sem hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur hér á landi síðan honum var hleypt af stokkunum í ársbyrjun 2010, en í dag er hann notaður af um 20% íslenskra heimila. Vefurinn er rekinn í samstarfi við alla stóru bankana þrjá. Meniga er í dag að vinna að ýmsum spennandi nýjungum í þjónustu sinni á Íslandi sem munu verða kynntar næstu misseri, en þær miða allar að því að hjálpa fólki að spara peninga með markvissum hætti.

Fyrirtækið hefur vaxið hratt frá stofnun í mars 2009 og er nú með starfsemi í Reykjavík, Stokkhólmi og London, þar sem Meniga opnaði nýlega skrifstofu. Starfsmenn Meniga eru nú um 80, og þar af eru 60 á Íslandi.  Þýskaland, Spánn og Suður-Afríka eru stærstu markaðir Meniga.  Hugbúnaður Meniga nær til, eða mun fljótlega ná til, um fimmtán milljóna netbankanotenda í fjórtán löndum. Meniga hefur hlotið fjölmörg alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar fyrir sinn hugbúnað á undanförnum árum og nú hefur fyrirtækinu verið veitt Nýsköpunarverðlaun Íslands.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.
Hér að neðan má sjá myndir frá þinginu 


Vestnorden ferðakaupstefnan í Reykjavík - skráning hefst 1. maí

$
0
0

Vestnorden ferðakaupstefnan verður haldin í Laugardalshöllinni í Reykjavík dagana 30. september til 1. október næstkomandi. Skráning á kaupstefnuna hefst 1. maí á heimasíðunni www.vestnorden.com

Á dögunum voru birtar niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í kjölfar kaupstefnunnar sem fór fram í Nuuk á Grænlandi á síðasta ári. Markmið könnunnarinnar var að leggja mat á áhrif kaupstefnunnar á þátttakendur og hugsanleg viðskiptatækifæri sem mynduðust í kjölfarið hennar. Könnunin var framkvæmd í mars sl. af Visit Greenland og má nálgast niðurstöðurnar hér

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili kaupstefnunnar. Vestnorden er árlegt samstarfsverkefni Íslands, Grænlands og Færeyja og er þetta í 28. skipti sem ferðakaupstefnan fer fram. Á kaupstefnunni verða samankomin öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á landinu til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaheildsölum sem sækja kaupstefnuna. Reiknað er með yfir 600 þátttakendum í ár.

Horn leyndarmála sett upp á Keflavíkurflugvelli

$
0
0

Búið er að setja upp hljóðinnsetninguna "The Secret Horn" í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli þar sem leyndarmálum um Ísland er hvíslað í eyru ferðalanga. Hornið er hluti af vetrarherferð Inspired by Iceland, en það hefur áður verið sett upp við Konstablerwache-torg í Frankfurt þar sem þessi litríka hljóðinnsetning vakti mikla athygli vegfarenda og þýskra fjölmiðla. Hornið er íslensk hönnun, en þjóðþekktir Íslendingar á borð við rithöfundana Steinunni Sigurðardóttur og Hallgrím Helgason, og tónlistarmennina Hauk Heiðar Hauksson í Diktu, Sigríði Thorlacius og Högna í Hjaltalín ljáðu rödd sína í verkefnið og hvísluðu leyndarmálum sem spiluð eru frá horninu.

Hornið er hluti af „Share the Secret“ herferðinni sem Inspired by Iceland hefur staðið fyrir í vetur. Herferðin miðar að því að gefa ferðalöngum kost á því að kynnast leyndardómum Íslands og eru Íslendingar hvattir til að segja frá skemmtilegum ævintýrum í kringum landið sem ekki hafa notið verðskuldaða athygli ferðamanna.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu segir: „Ísland er fullt af ævintýralegum tækifærum sem fáir vita af og eru einfaldlega ekki á kortinu hjá erlendum ferðamönnum. Höfuðborgin og hver og einn landshluti býr yfir spennandi svæðum, fólki, skemmtilegri menningu, góðum mat, töfrandi slóðum og afþreyingu. Við viljum því gefa ferðamönnum tækifæri til að uppgötva íslensk ævintýri um allt land og ekki síður að gefa Íslendingum tækifæri á að benda ferðamönnum á það sem þeir ættu ekki að láta framhjá sér fara sem hægt er að upplifa allan ársins hring.

Spennandi starfsnám hjá Íslandsstofu

$
0
0

Íslandsstofa auglýsir eftir starfsnema frá júní til desember 2014. Um er að ræða sjö mánaða tímabil frá júní fram í desember 2014. Um fullt starfsnám er að ræða yfir sumarið en síðan um 40% starfsnám sem hentar vel með námi.

Helstu verkefni og ábyrgð
Markmið starfsnámsins er að gefa ungu fólki sem er að hefja starfsferil sinn og vill afla sér reynslu, færi á að kynnast því fjölbreytta starfi sem er unnið í alþjóðlegri markaðssetningu hjá Íslandsstofu. 

Um er að ræða sjö mánaða tímabil frá júní fram í desember 2014. Um fullt starfsnám er að ræða yfir sumarið en síðan um 40% starfsnám sem hentar vel með námi.

Hæfniskröfur

  • Umsækjandi þarf að vera í BA/BS eða meistaranámi í grein sem tengist störfum Íslandsstofu á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina
  • Reynsla af fjölmiðlum, almannatengslum eða alþjóðlegri markaðssetningu æskileg
  • Góð tungumálakunnátta í ensku og íslensku. Önnur tungumálakunnátta æskileg.
  • Skipulögð og nákvæm vinnubrögð
  • Góð þekking á Íslandi
  • Fyrirtaks námsferill og einkunnir

Umsóknum skal skila inn rafrænt á islandsstofa@islandsstofa.is fyrir 7. maí nk.

Nánari upplýsingar veitir Ragnheiður Sylvía Kjartansdóttir, verkefnisstjóri ferðaþjónustu og skapandi greina, ragnheidur@islandsstofa.is

 

 

 

Sjávarútvegssýningarnar í Brussel 6.- 8. maí

$
0
0

Sjávarútvegssýningarnar Seafood Expo Global og Seafood Expo Processing verða haldnar í Brussel dagana 6.-8. maí.  Alls sýna 33 fyrirtæki undir hatti ICELAND, 15 fyrirtæki í véla, tækja og þjónustu hlutanum og 18 fyrirtæki í sjávarafurða hlutanum. Að auki sýna 5 önnur íslensk fyrirtæki á sýningunni.

Að vanda sér Íslandsstofa um allt utanumhald við skipulag þjóðar-básanna. Þetta er í 22. sinn sem sýningin er haldin og hefur íslenskur þjóðarbás verið með frá upphafi. Þetta er langstærsta sýningin í greininni, sú mikilvægasta og einnig alþjóðlegasta. Búast má við að milli 500 og 1000 Íslendingar séu í Brussel meðan á sýningunni stendur, sýnendur og gestir.

Líkt og síðustu ár mun Iceland Responsible Fisheries (IRF) verða kynnt á afurðasýningunni Seafood Expo Global sem haldin verður í Brussel 6.- 8. maí nk.  Áhersla er lögð á að kynna Ísland sem upprunaland hreinna og heilnæmra sjávarafurða og vottun og ábyrgar fiskveiðar Íslendinga. Nú eru 111 fyrirtæki, þar af 73 íslensk, sem taka þátt í IRF verkefninu og kynna íslenskar sjávarafurðir undir sameiginlegu upprunamerki.

Kaupendur og seljendur á íslenskum sjávarafurðum og aðrir hagsmunaaðilar eru boðnir velkomnir til fundar við starfsfólk Ábyrgra fiskveiða ses og Íslandsstofu sem sjá um að kynna verkefnið, íslenskan sjávarútveg, vottun og markaðsmál. Á sýningunni er hægt að bóka fundi með Finni Garðarssyni verkefnisstjóri hjá Ábyrgum fiskveiðum ses, Guðnýju Káradóttur forstöðumanni og Björgvini Þór Björgvinssyni verkefnisstjóra hjá Íslandsstofu.

Vinsamlegast hafið samband við Guðnýju Káradóttur varðandi nánari upplýsingar og til að bóka fundi í síma 511 4000 eða sendið póst á gudny@islandsstofa.is.

Nánari upplýsingar á vef IcelandResponsibleFisheries

Ársskýrsla Íslandsstofu 2013

Tækifæri í austri rædd á ársfundi Íslandsstofu

$
0
0

Fjölmennt var á ársfundi Íslandsstofu sem fram fór á mánudag, en um 170 manns lögðu leið sína á Grand hótel af þessu tilefni. Á fundinum ræddu þeir Victor Gao, forstöðumaður China National Association of International Studies og Magnús Bjarnason, forstjóri Icelandic Group, um uppbyggingu og tækifæri í Kína. Vilborg Einarsdóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu setti fundinn. Þá fór Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri íslandssofu yfir það helsta í starfsemi stofunnar á liðnu ári og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra flutti ávarp. Í lok fundarins fór fram útskrift í markaðsverkefninu ÚH (Útflutningsaukning og hagvöxtur) í 24. sinn og verðlaun veitt fyrir bestu viðskiptaáætlunina. Fundarstjóri var Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis. 

Hér að neðan má finna kynningar þeirra Victor Gao og Magnúsar Bjarnasonar

China´s International Relation
Viðskiptatækifæri í austri

Á fundinum var ársskýrsla Íslandsstofu kynnt en þar er gerð grein fyrir helstu verkefnum Íslandsstofu á árinu 2013. Hægt er að nálgast skýrsluna hér

Hér að neðan má sjá myndir frá ársfundinum

Gullkarfaveiðar Íslendinga hafa hlotið IRF vottun

$
0
0

Gullkarfaveiðar Íslendinga hafa hlotið vottun skv. ströngustu alþjóðlegu kröfum sem Iceland Responsible Fisheries (IRF) stendur fyrir. Vottunin er mikilvæg krafa á helstu markaðssvæðum Íslendinga fyrir gullkarfann, einkum í Þýskalandi. Vottunin staðfestir ábyrgar veiðar á gullkarfastofninum sem uppfylla varúðarleið við stjórn fiskveiða en veiðunum er nú stjórnað skv. aflareglu (Harvest control rule) sem stjórnvöld hafa ákveðið í samræmi við tillögu Hafrannsóknarstofnunar og sem Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hefur yfirfarið og samþykkt.

Vottunarstaðallinn byggir m.a. á leiðbeiningarreglum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Vottunin er unnin af Global Trust Certification/SAI Global, óháðum faggiltum vottunaraðila. Íslenski gullkarfinn er fyrsta karfategundin sem hlýtur vottun af þessu tagi. Áður hafa þorsk-, ýsu- og ufsaveiðar verið vottaðar skv. IRF kröfum.

Nánari upplýsingar veita Finnur Garðarsson hjá Ábyrgum fiskveiðum ses, finnur@fiskifelag.is, sími 896 2400 og Guðný Káradóttir hjá Íslandsstofu, gudny@islandsstofa.is, sími 693 3233.

 


Ert þú innblásin af Íslandi?

$
0
0

Íslandsstofa leitar að tveimur verkefnisstjórum á svið ferðaþjónustu og skapandi greina.

Umsóknir óskast fylltar út á www.hagvangur.is, þar sem jafnframt má finna nánari upplýsingar um störfin. Umsóknarfrestur er til og með 11. maí nk.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig J. Haraldsdóttir, rannveig@hagvangur.is

Sjá auglýsingu á pdf

 

Vel heppnuð fundaröð Íslandsstofu og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja

$
0
0

Á þriðjudag lauk fundaröð Íslandsstofu og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja um viðskipti hugbúnaðarfyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum.

Fundaröðin samanstóð af fjórum fundum tengdum viðfangsefninu. Á fyrsta fundi var samstarf fyrirtækja á erlendum markaði tekið fyrir. Þá var tengslamiðlun á erlendum markaði skoðuð. Efni þriðja fundar var nýjar markaðsáherslur fyrir upplýsingatæknifyrirtæki og á lokafundinum var gerð hugbúnaðarsamninga á erlendum markaði tekin fyrir.

Upphafið af þessari fundaröð var hraðstefnumót sem Íslandsstofa og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) stóðu fyrir á síðasta ári. Í kjölfarið var verkefnahópur settur á fót en í honum sátu Daði Friðriksson, Tölvumiðlun, Eloise Freygang frá LS Retail, Finnur Tjörvi Bragasson hjá AGR Inventory og Arnar Pálsson frá Advania. Íslandsstofa vill þakka þeim fyrir gott samstarf á liðnum mánuðum.
Þá þakkar Íslandsstofa einnig SUT, fyrirlesurum og öllum þeim sem sóttu fundina fyrir samstarfið.  

Nánari upplýsingar veitir Björn H Reynisson, bjorn@islandsstofa.is

Út í háræðarnar - vinnustofur í smærri borgum Skandinavíu

$
0
0

Íslandsstofa gekkst í vikunni fyrir röð vinnustofa í þremur borgum á Norðurlöndunum. Vinnustofurnar fóru fram dagana 5 - 7. maí í borgunum Þrándheimi, Gautaborg og Billund og voru skipulagðar ýmist í samvinnu við flugvallaryfirvöld eða ræðismann Íslands á viðkomandi stað.

Góður rómur var gerður að heimsóknunum og voru fyrirtæki sem staðsett eru í talsverði fjarlægð frá höfuðborgunum afar þakklát fyrir að komið væri til móts við þau á þennan hátt. Á öllum þessum stöðum er boðið upp á beint flug til Íslands og því mikilvægt að hafa góðar tengingar við heimamenn. 

Auk fulltrúa Íslandsstofu sem kynntu það helsta sem er á döfinni í íslenskri ferðaþjónustu tóku þátt fulltrúar frá Flugfélagi Íslands, Iceland Travel, Icelandair, Iceland Excursions, Mountainguides, Íslandshótel, Norðursigling  og Terra Nova. 

Vinnustofa í gerð viðskiptasamninga á alþjóðamarkaði

$
0
0

Íslandsstofa stóð á fimmtudag fyrir vinnustofu í gerð viðskiptasamninga á erlendum markaði, en þar var farið yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar slíkir samningar eru gerðir.

Leiðbeinandi á vinnustofunni var Hafliði K. Lárusson lögfræðingur en hann fór m.a. yfir tilgang og mikilvægi löglegra samninga í alþjóðaviðskiptum. Hafliði sagði nauðsynlegt að vanda gerð þessara samninga svo draga megi úr áhættu og verja hagsmuni beggja aðila. Þar ber að hafa í huga að samningahættir og venjur geta verið mismunandi eftir löndum, sem og lagahefðir, en allt eru þetta atriði sem skipta miklu máli í gerð samninga á alþjóðamarkaði. Þá nefndi Hafliði að gott getur verið að nýta sér staðlaðar samningsfyrirmyndir, s.s. frá Alþjóða viðskiptaráðinu.
Þátttakendur á vinnustofunni, um 30 talsins, voru mjög áhugasamir um málefnið og nýttu sér tækifærið og spurðu Hafliða spjörunum úr, gegn greiðum svörum frá honum.

Nánari upplýsingar um vinnustofuna veitir Björn H Reynisson, bjorn@islandsstofa.is

Inspired by Iceland er kennslubókardæmi

$
0
0

Inspired by Iceland verður notað sem dæmi í 15. útgáfu af kennslubókinni Marketing Management eftir þá Philip Kotler og Kevin Lane Keller. Bókin kemur út hjá fyrirtækinu Pearson Inc. nú í haust, en fyrsta útgáfa bókarinnar kom út árið 1967. Hún hefur frá fyrstu útgáfu verið talin ein af bestu kennslubókum markaðsfræðinnar og fanga þróun í markaðsfræðum og framkvæmd á hverjum tíma. Bókin er kennd víðsvegar um heim og er iðulega fjallað um stærstu vörumerki heims í bókinni s.s. Apple, Microsoft, Nike og Coca Cola. Bókin er m.a. kennd í háskólum á Íslandi.

Í bókinni verður fjallað um markaðssetningu Inspired by Iceland og hvernig samþætting skilaboða hefur slagkraft í markaðssetningu. Markaðsátakið fór af af stað árið 2010 og í framhaldi af því hafa áherslur í markaðssetningu og landkynningu Íslands breyst. Áður var unnið meira eftir mismunandi mörkuðum og þörfum þeirra en í dag er um samþætta  markaðssetningu að ræða með sömu skilaboð í öllum miðlum og mörkuðum, hvort sem er í almannatengslum, auglýsingum, samfélagsmiðlum, vefsíðum eða viðburðum. Þetta er talið hafa skapað þann slagkraft sem hefur átt þátt í að vekja þá athygli sem Ísland hefur fengið sem áfangastaður.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu er afar ánægð og stolt af því að fjallað sé um Inspired by Iceland í bókinni. „Sú staðreynd að fjallað er um Inspired by Iceland á sama tíma og verið er að fjalla um bestu markaðssetninguna í heiminum í dag er afar mikil viðurkenning. Við erum einnig afar spennt yfir þeirri miklu landkynningu sem er fólgin í því að vera í bókinni. Viðskiptafólk og nemendur á öllum aldri um heim allan munu lesa sér til og vera minntir á Ísland. Ég sjálf nýti mér þessa bók iðulega í mínum störfum og verður ekki slæmt að vera minntur á starfið okkar í næstu bók. Það er einnig viðurkenning fyrir Inspired by Iceland að þarna er verið að fjalla um markaðssetningu áfangastaðar en ekki hina venjulegu vöru og fyrirtæki eins og við þekkjum úr markaðsfræðunum.“

Truenorth hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014

$
0
0

Síðdegis í dag veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, kvikmyndafyrirtækinu Truenorth Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2014 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það voru Helga Margrét Reykdal, framkvæmdastjóri og Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth, sem veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins. 

„Truenorth er í fararbroddi þeirra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í að þjóna erlendum aðilum sem vilja kvikmynda á Íslandi – hvort sem það eru heilar kvikmyndir, sjónvarpsþættir, auglýsingar eða myndbönd. Mikil fagmennska, dugnaður og ósérhlífni einkennir fyrirtækið, starfsmenn og stjórnendur," sagði Vilborg Einardóttir, formaður valnefndar og stjórnar Íslandsstofu um fyrirtækið. 

Af þeim verkefnum sem fyrirtækið hefur sinnt á liðnum árum má nefna stórmyndir á borð við Flags of Our Fathers, Oblivion, Walter Mitty og Noah. Undanfarin tvö ár sinnti fyrirtækið yfir 50 erlendum verkefnum þar af voru átta stór kvikmyndaverkefni. Erlendar tekjur fyrirtækisins þessi tvö ár námu um 4.8 milljörðum króna í heildina.

Talið er að í dag séu að minnsta kosti 1600 störf sem tengist hér beint og óbeint kvikmyndagerð. Þá er áætlað að þjónustufyrirtæki í kvikmyndagerð kaupi að meðaltali um 30 þúsund gistinætur ár hvert, kaupi tvö þúsund flugsæti og leigi 250-300 bílaleigubíla dag hvern meðan verkefnin eru í gangi. Flest eru verkefnin unnin úti á landi og gjarna utan hefðbundins ferðamannatíma. Við tökur á kvikmyndinni Thor 2 var Truenorth t.d. með um 500 manns í gistingu á 26 stöðum á Suðurlandi í október sl. og munar um minna á þessum árstíma.

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 26. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Össur, Hampiðjan, Trefjar, Delta, og Ferðaskrifstofa bænda og á síðasta ári hlaut HB Grandi verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóðaviðskiptaráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Vilborg Einarsdóttir frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir frá athöfninni

Magnús Scheving heiðraður á Bessastöðum

$
0
0

Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar, hlaut á fimmtudag sérstaka heiðursviðurkenningu við afhendingu Útflutningsverðlauna forseta Íslands við athöfn á Bessastöðum. Heiðursviðurkenningin er veitt einstaklingi sem þykir með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð. Á síðasta ári hlaut Jóhann Sigurðsson bókaútgefandi heiðursviðurkenninguna en áður hafa m.a. Kristinn Sigmundsson óperusöngvari og Björk hlotið hana.

Í ræðu sinni um Magnús sagði Vilborg Einarsdóttir, formaður valnefndar og stjórnar Íslandsstofu, m.a.: „Lítil þjóð getur alla jafna ekki búist við því að meðal hennar þroskist einstaklingar sem geta haft umtalsverð áhrif á alþjóðlega stefnur og strauma. Magnús hefur þó sannað að slíkt er hægt, því með þrotlausu starfi og eldmóði hefur honum tekist að vekja athygli á hinni miklu vá sem offitan er fyrir allan hinn þróaða heim og honum hefur tekist að finna leiðir til að hvetja unga sem aldna til að temja sér heilsusamlegri lífshætti."

Latibær eða LazyTown er í dag alþjóðlega þekkt vörumerki fyrir heilsusamlegt líferni, hollt mataræði, hreyfingu og skemmtun og hefur náð til 500 milljón heimila í 170 löndum. Þá hefur Latibær á liðnum árum verið stór atvinnurekandi og skapað að meðaltali yfir 100 ársverk í föstum og afleiddum störfum hér á landi og má t.d. áætla að um 4.5 milljarðar króna hafi komið inn í íslenskt hagkerfi á síðustu tveimur og hálfu ári í gegnum fyrirtækið.

Magnús Scheving hefur því sannarlega varpað jákvæðu ljósi á land okkar og þjóð með störfum sínum.

Myndir frá athöfninni

Portúgölsk saltfiskuppskrift varð að draumaferð til Íslands

$
0
0

Ungt par frá Portúgal, þau Rute Arsénio og Bruno Sequeira, heimsótti Ísland í fyrsta skipti fyrr í þessum mánuði. Íslandsferðina hlaut Rute í vinning fyrir bestu saltfiskuppskriftina í uppskriftasamkeppni í tengslum við markaðsverkefni sem Íslandsstofa stendur fyrir í samstarfi við saltfiskframleiðendur. Síðar í mánuðinum munu vinningshafar í uppskriftasamkeppninni á Spáni koma til landsins, en markaðsverkefnið er einnig í gangi þar og á Ítalíu.

Þau Rute og Bruno dvöldu á Íslandi í fjóra daga og skipulagði Íslandsstofa dagskrá fyrir þau til að kynna þeim upprunaland saltfisksins. Farið var í humar- og saltfiskvinnslu í Þorlákshöfn þar sem framleiddur er gæðasaltfiskur sem endar á diski neytenda í Portúgal, fylgst með lífinu á höfninni í Grindavík, farið í Bláa lónið og að sjálfsögðu smakkað á íslenskum kræsingum af ýmsu tagi.

Það hafði lengi verið draumur Rute að koma til Íslands en aldrei hafði hún haft efni á því: „Þegar ég sá auglýsinguna um samkeppnina og Íslandsferðina á Facebook síðunni bacalhauislandia.pt hugsaði ég með mér hvort það væri ekki komið að mér“ segir Rute. „Ég ákvað að slá til og sendi inn mína uppáhalds saltfiskuppskrift og þegar mér var tilkynnt að ég væri á leiðinni til Íslands varð ég himinlifandi!“ segir Rute.

Mikil hefð er fyrir neyslu á saltfiski í Portúgal og segir portúgalskt máltæki að það séu til 1001 saltfiskuppskrift þar í landi. Rute sér svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun að senda inn sína saltfiskuppskrift fyrir síðustu jól: „Þessir dagar á Íslandi hafa verið draumi líkastir. Við Bruno höfum átt hérna yndislega daga sem munu aldrei gleymast. Núna mun ég hugsa til Íslands með hlýjum huga í hvert einasta skipti sem ég borða saltfisk og það er ekki svo sjaldan“.

Betri svefn fær verðlaun fyrir bestu markaðs- og aðgerðaráætlunina

$
0
0
Vilborg Einarsdóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu, Gunnar Jóhannsson frá Betri svefn og Andri Marteinsson, forstöðumaður hjá Íslandsstofu.

Það voru Gunnar Jóhannsson og teymi hans í Betri svefn sem báru sigur úr býtum fyrir bestu markaðs- og aðgerðaráætlunina við áfangalok í útflutningsverkefninu ÚH á dögunum. Varan sem Betri svefn stefnir á að koma á markað á að bæta svefn fólks og heitir Somnify, hugræn atferlismeðferð sem hægt er að nálgast á vefnum. Verkefnið vakti mikla hrifningu meðal stjórnenda ÚH, en að sögn Jóns Ásbergssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu og formanns stýrihópsins, er þetta „gott dæmi um vöru sem uppfyllir öll helstu skilyrði sem þörf er fyrir við nýsköpun. Hún er einföld, aðgengileg og mikil þörf er fyrir lausnina á markaði.“ Þá hefur verkefnið mikla vaxtarmöguleika að mati dómnefndar.

Að þessu sinni tóku fulltrúar níu fyrirtækja þátt í verkefninu: Mobile health ehf, Ísland, hvar er þín fornaldar frægð ehf, Fjörefli ehf, Grímur kokkur ehf, Norlandair ehf, Stefna ehf, Slippurinn Akureyri ehf, Via Health ehf og Urta Islandica ehf.

Íslandsstofa stendur að ÚH verkefninu í samvinnu við Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Félag kvenna í atvinnulífinu.

Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH), verður haldið í 25. sinn í haust. Verkefnið er ætlað fyrirtækjum sem hafa áhuga á að hefja útflutning, auka útflutning eða treysta tök sín á markaðssetningu erlendis. Að vanda verða átta til tíu fyrirtæki valin til þátttöku. ÚH-verkefnið tekur sjö mánuði og hefst hin eiginlega vinna um miðjan október nk. og stendur til apríl árið 2015. Að jafnaði eru tveir vinnudagar í mánuði. Nánar um ÚH verkefnið

Nánari upplýsingar veita Andri Marteinsson verkefnisstjóri, andri@islandsstofa.is, Björn H. Reynisson, bjorn@islandsstofa.is og
Erna Björnsdóttir, erna@islandsstofa.is

Mikilvægi nýsköpunar rætt í Háskólanum í Reykjavík

$
0
0

Íslandsstofa kom að skipulagi Nýsköpunartorgsins sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík sl. föstudag og laugardag. Um var að ræða fagráðstefnu um starfsumhverfi og uppbyggingarferli nýsköpunarfyrirtækja og sýningu þar sem fyrirtæki og stofnanir kynntu árangur sinn í nýsköpun. Ráðstefnan hófst með sameiginlegri dagskrá en síðan voru haldnar málstofur um þrjár línur í uppbyggingarferli nýsköpunarfyrirtækja þar sem fyrirtækjum var skipt upp í deildir eftir þroskastigi. Íslandsstofa sá um málstofur tengdar markaðsmálum í öllum þremur deildum en þar var m.a. rætt um mikilvægi undirbúnings við markaðssetningu, nauðsyn markaðsáætlunar og hvernig fyrirtæki geta byggt upp tengslanet sitt á alþjóðamarkaði.
Íslandsstofa þakkar fulltrúum frá fyrirtækjunum Betri Svefn, Reykjavík Letterpress, AGR, Íslenskum æðardún og Thor Ice fyrir þátttökuna í málstofunum. 

Peter Greenberg verður aðalfyrirlesari Vestnorden ferðakaupstefnunnar

$
0
0

Peter Greenberg verður aðalfyrirlesari á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Reykjavík dagana 30. september – 1. október.

Greenberg er einn virtasti ferðablaðamaður samtímans, en hann hefur meðal annars unnið til Emmy verðlauna fyrir ferðaþætti sína. Greenberg er ritstjóri ferðaumfjöllunar á fréttastofu CBS og kemur iðulega fram í bæði morgunþáttum og kvöldfréttum CBS.

Auk þess hefur Greenberg framleitt fjölda sérþátta um ferðalög og ferðamennsku, meðal annars þættina The Royal Tour, þar sem hann ferðast með þjóðhöfðingjum um land þeirra. Þá hefur hann skrifað hina vinsælu Travel Detective bókaröð sem hafa náð á metsölulista New York Times, ásamt því að stjórna útvarpsþættinum Peter Greenberg Worldwide, sem útvarpað er vikulega frá nýjum stað um gjörvöll Bandaríkin.

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar Vestnorden 2014 sem haldin verður dagana 30. september – 1. október í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Vestnorden er árlegt samstarfsverkefni Íslands, Grænlands og Færeyja og er þetta í 29. skipti sem ferðakaupstefnan fer fram.

Á kaupstefnunni verða samankomin öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á landinu til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaheildsölum sem sækja kaupstefnuna.  Reiknað er með yfir 600 þátttakendum í ár.

Ferðasýningar og vinnustofur framundan

$
0
0

Íslandsstofa skipuleggur viðburði erlendis og þátttöku á ýmsum erlendum ferðasýningum og landkynningum. Má þar nefna sýningar á borð við World Travel Market og Scandinavia Show í London, TUR sýninguna í Gautaborg, ITB sýninguna í Berlín, og fleiri. Þá heldur Íslandsstofa vinnustofur og kynningarfundi erlendis fyrir söluaðila Íslandsferða. Hér að ofan gefur á að líta lista yfir þær ferðasýningar og vinnustofur sem Íslandsstofa stefnir að þátttöku í frá hausti 2014 fram til vors 2015. 

Hér er hægt að nálgast skjalið á pdf formi 

Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlega hafið samband í síma 511 4000, með tölvupósti á islandsstofa@islandsstofa.is eða thorleifur@islandsstofa.is
 

Viewing all 892 articles
Browse latest View live