Viljayfirlýsing Íslandsstofu og Þróunarbanka Kína um samvinnu við greiningar fjárfestingartækifæra var undirrituð í Þjóðmenningarhúsinu í dag að viðstöddum forsætisráðherrum landanna.
Fjárfestingarsvið Íslandsstofu og Þróunarbanki Kína (CDB) munu í sameiningu greina fjárfestingartækifæri hér á landi og þörf íslenskra fyrirtækja fyrir fjármögnun verkefna hvort sem er til uppbyggingar hér á landi eða fjárfestingar í Kína. Markmiðið er að skilgreina samstarfssvið þar sem hagsmunir beggja aðila fara saman. Fjárfestingarsvið aðstoðar CDB við að komast í samband við íslensk fyrirtæki sem leita fjármögnunar og CDB kemur Fjárfestingarsviði í samband við kínversk fyrirtæki og fjárfesta í þeim geirum sem skilgreindir verða sem samstarfssvið aðila.
Jón Ásbergsson framkvæmdstjóri Íslandsstofu og Zhijie Zheng varaforseti Þróunarbanka Kína undirrituðu viljayfirlýsinguna í Þjóðmenningarhúsinu að viðstöddum Wen Jiabao forsætisráðherra Kína og Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands. CDB hefur undirritað hliðstæðar viljayfirlýsingar um samstarf við fjárfestingarstofur nokkurra Evrópuríkja, þeirra á meðal Svíþjóðar og Danmerkur.